01.kafli - Ljós í myrkri!

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

1.kafli - Ljós í myrkri!

Við stóra gluggann í horni bókasafnsins, innan um barnabækurnar, lá litla bókaveran Zeta steinsofandi ofan á bók. Hún hafði verið að lesa spennandi sögu langt fram á nótt, alveg þangað til hún gat ekki haldið augunum opnum lengur. Hún hraut lágt.

Skyndilega opnaðist útidyrahurð bókasafnsins og háværar raddir vöktu Zetu upp af ljúfum draumi. Hún opnaði augun rólega, settist upp og geispaði. Litlu eyrun hennar hristust dálítið. Raddirnar nálguðust og nú heyrði Zeta að þetta var hópur af krökkum sem kom gangandi inn í barnadeild safnsins. Zeta leit út um gluggann. Það voru ljós úti um allt. Ljósaseríur voru strengdar á milli húsa og fyrir utan bókasafnið stóð lítið grenitré alsett hvítum og leiftrandi fallegum ljósum. Zeta stökk á fætur og klessti andlitið upp að rúðunni. Hvað var að gerast? Hvers vegna var búið að lýsa upp myrkrið?

Nokkrir krakkar komu hlaupandi inn í barnadeildina og hófust handa við að leita sér að bókum í bókahillunum. Fleiri krakkar bættust í hópinn og loks kennarinn þeirra. Sumir töluðu hátt. Tvær stelpur komu valhoppandi og söngluðu lag hlæjandi. Zeta fylgdist með þessu öllu úr öruggri fjarlægð.

„Kennari, hvar finn ég bækur um jólin?“ spurði stelpa með tvær fléttur og kennarinn benti henni á bókahillu undir stóra glugganum.

Zeta faldi sig á bak við bókina sína. Jólin? Hvað eru jól? hugsaði hún.

Nú kom konan sem vann á bókasafninu gangandi inn í barnadeildina. Hún teygði sig í bók í stóru bókahillunni og gekk síðan að krakkahópnum. Hún fékk sér sæti á litlum stól.

„Velkomin á bókasafnið. Fáið ykkur sæti,“ sagði hún og benti krakkahópnum að setjast á teppið fyrir framan sig. Það tók smá tíma fyrir krakkana að koma sér fyrir. Það var greinilega mikil spenna í loftinu. „Við ætlum að syngja nokkur jólalög saman og byrjum á Bráðum koma blessuð jólin,“ sagði hún og allir krakkarnir tóku undir og sungu fullum hálsi: Bráðum koma blessuð jólin, börnin fara að hlakka til. Allir fá þá eitthvað fallegt, í það minnsta kerti og spil.

Zeta fylgdist agndofa með söng barnanna. Hún lygndi aftur augunum og hlustaði á þetta fallega lag. Ef jólin hljóma svona þá hljóta þau að vera dásamleg, hugsaði Zeta með sér og varð að komast að því hvernig þessi jól litu út.