05. Leysum ráðgátuna!

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

5. Leysum ráðgátuna!

„Hvað heitir þú?“ spurði Zeta og færði sig rólega nær snjókarlinum.

„Ég heiti Klaki og ég er...“ snjókarlinn hikaði og nú sneri hann sér loks við, „... eða öllu heldur, ég VAR snjókarl,“ sagði hann og döpur augun litu beint í augun á Zetu. „Eins og þú sérð þá hef ég týnt nefinu mínu, öðrum handleggnum og fína hattinum mínum. Ég líkist varla snjókarli lengur,“ bætti hann við og brast í grát aftur og nú hrundu tárin eins og regndropar sem falla af himnum. Zeta fann til með snjókarlinum.

„Ég get örugglega hjálpað þér að finna allt sem þig vantar, kæri Klaki,“ sagði Zeta bjartsýn. „Ég er mjög góð í að leita og finna hina ýmsu hluti.“

„Þú? Hvernig í ósköpunum getur ÞÚ hjálpað?“ spurði snjókarlinn og horfði efins á Zetu. „Hefur þú lent í svakalegri snjóhríð?“

„Nei, reyndar ekki,“ sagði Zeta og hugsaði sig dálítið um. „En ég leita til dæmis oft að bókum á bókasafninu og finn þær alltaf.“

„Hefur þú leyst dularfullar ráðgátur?“ spurði snjókarlinn ákveðinn.

„Nei, reyndar ekki...,“ svaraði Zeta hugsi. „En ég hef lesið MARGAR bækur sem fjalla um ráðgátur! Það eru uppáhaldsbækurnar mínar!“

Snjókarlinn andvarpaði og settist aftur snjóinn. „Þú fyrirgefur, en það hljómar ekki eins og það verði mikil hjálp í þér.“

Zeta lét þessa neikvæðni ekki trufla sig. Hún klifraði upp á snjóskafl, skimaði í kringum sig og rótaði í snjónum. „Segðu mér frekar að hverju ég á að leita,“ sagði hún spennt. Eyrun á henni stóðu beint upp í loftið og hringsnérust eins og loftnet í leit að sendingu.

Klaki hugsaði sig um. „Hvar á ég að byrja? Jólatréð fauk og allt fallega jólaskrautið mitt. Allar gjafirnar fuku í burtu og fallegu jólaljósin sem ég var búinn að hengja upp. Nú og auðvitað hatturinn, nefið og hendin mín! Ég er vanur að halda jólin mín í snjóhúsinu mínu, með piparkökum, jólatré og fallegum pökkum.“

Zeta horfði í kringum sig. Hvítur snjórinn lá eins og stórt teppi yfir landinu og hvergi sáust merki um hlutina sem höfðu horfið.

„Hefur þetta gerst áður?“ spurði Zeta rannsakandi.

„Nei. Það hefur aldrei áður komið snjóbylur í Jólalandi. Hér er allt svo friðsælt og jólalegt,“ sagði hann hnugginn. „Þessi bók fjallar einmitt um það hvernig maður undirbýr jólin með jólaskrauti, jólagjöfum og piparkökum.“

„Þá hlýtur að vera einhver mjög dularfull ástæða fyrir þessu óveðri,“ sagði Zeta sem var nú orðin spennt að leysa þessa ráðgátu. „Leitum að fyrstu vísbendingu!“