06. Lagt af stað

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

6. Lagt af stað

„Af stað!“ hrópaði Zeta af æsingi. „Við ætlum að finna jólin þín og leysa ráðgátuna um óveðrið.“ „Jæja, ég hef svo sem ekki neinn annan til að hjálpa mér,“ sagði Klaki.

„Það var lagið! Ég ætla að byrja á að hjálpa þér á fætur,“ sagði Zeta og greip í hönd snjókarlsins og togaði hann til sín.

„Þakka þér fyrir,“ sagði snjókarlinn sem var dálítið valtur og ringlaður þegar hann stóð á fætur. Hann þreifaði með hendinni á andlitinu þar sem nefið hans hafði verið og hatturinn.

„Æ, ég hlýt að líta alveg hræðilega út,“ sagði hann vandræðalegur.

„Nei alls ekki. Ég var einmitt að hugsa um hvað þú ert með falleg augu,“ sagði Zeta og ljómaði öll af hlýju.

„Nú verð ég vandræðalegur,“ sagði Klaki sem roðnaði alveg niður í tær.

Skyndilega kom dálítil vindhviða og þyrlaði upp snjónum í kringum þau. Klaki leit flóttalega í kringum sig. „Það er best að við drífum okkur af stað. Það gæti komið annar stormur.“ Klaki benti í áttina að fjöllunum. „Við skulum fara þessa leið. Rétt hjá fjöllunum býr vitur, gamall refur sem ég þekki. Hann gæti gefið okkur vísbendingu um hvers vegna snjóbylur geisar í Jólalandi.“

„Stórkostleg hugmynd!“ sagði Zeta, til í slaginn. Og þar með voru þau lögð af stað. Agnarsmáir fætur þeirra örkuðu með erfiðismunum í gegnum snjóinn sem var sums staðar mjög djúpur.

„Það er vegur hérna einhvers staðar undir snjónum,“ sagði Klaki og horfði rannsakandi niður fyrir sig. Öðru hverju rótaði hann í snjónum til að gá hvort þar væri eitthvað að finna. „Ég er viss um að vegurinn liggur í þessa átt því ég kannast við þessi tré fram undan,“ sagði hann síðan og benti á lítinn skóg rétt fyrir framan þau, fyrir neðan stóra brekku.

Snjórinn dýpkaði og það varð enn erfiðara að ganga. Fæturnir og maginn á Zetu voru komin á bólakaf ofan í snjóinn en hún lét það ekki stoppa sig.

„Passaðu þig á brekkunni!“ kallaði Klaki en það var of seint. Zeta gáði ekki að hvar hún steig og flaug af stað niður stóru brekkuna.