08. Maddamma mús

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

8. Maddamma mús

Þegar Zeta og Klaki litu við, sáu þau að það var ekkert að óttast. Þetta var bara lítil mús sem var að klöngrast upp úr holu upp við stóran stein. Músin stóð upp og dustaði snjóinn af kjólnum sínum. Þá tók hún eftir Zetu og Klaka.

„Góðan daginn,“ sagði hún snögglega og stakk síðan hausnum aftur ofan í holuna sína. Zeta og Klaki litu hvort á annað. Músin dró stóran bandhnykil og prjóna upp úr holunni sinni. Hún fékk sér sæti í snjónum og hófst handa við að prjóna. Hún starði niður á prjónana sem hreyfðust leiftursnöggt og spunnu garnið saman.

„Góðan daginn,“ sagði Zeta og brosti kurteislega til músarinnar. „Ég heiti Zeta og þetta er vinur minn Klaki.“

„Ég heiti Maddamma mús,“ sagði músin án þess að líta upp frá prjónunum.

„Við erum að leita að ýmsum hlutum sem hann Klaki týndi í storminum,“ útskýrði Zeta og færði sig nær músinni.

„Gangi ykkur vel með það,“ hnussaði í músinni sem prjónaði ákaft. Zeta hafði aldrei séð neinn prjóna svona hratt.

„Hvað áttu við?“ spurði Klaki.

„Ég á bara við að allir í Jólalandi eru að leita að einhverju sem þeir týndu í snjóbylnum og enginn finnur neitt. Stormurinn feykti burt stóru sænginni okkar svo nú þarf ég að prjóna nýja áður en börnunum mínum verður kalt,“ bætti músin við, dálítið pirruð. Neðan úr prjónunum hennar hékk langur renningur sem líktist stórum trefli. „Ég var næstum búin að týna öllum músarungunum mínum í rokinu.“

Klaka varð starsýnt á annan prjóninn. Honum fannst hann eitthvað kunnuglegur. „Hverskonar prjón ertu með þarna?“ spurði hann hugsi.

„Annar prjónninn minn fauk í burtu í storminum svo ég varð að bjarga mér með þessari gulrót sem ég fann fyrir utan holuna mína,“ svaraði Maddamma mús án þess að svo mikið sem líta upp frá prjónaskapnum.

„Bíddu nú við! Þetta er nefið mitt!“ hrópaði Klaki upp yfir sig þegar hann áttaði sig á því að músin var að nota nefið hans fyrir prjón!