09. Ilmur af jólum

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

9. Ilmur af jólum

Maddamma mús leit nú loks upp frá prjónaskapnum og horfði furðu lostin á andlitið á Klaka og svo á prjónana sína til skiptis.

„Jæja, það er líklega rétt hjá þér. Ég biðst afsökunar en margra músa móðir þarf stundum bara að bjarga sér. Ef þú gætir bara beðið augnablik,“ sagði hún síðan og prjónaði eins hratt og hún gat síðustu umferðina á teppinu sínu. Því næst losaði hún gulrótina úr garninu og rétti Klaka.

„Gjörðu svo vel og þakka þér fyrir afnotin. Nefið þitt kom sér vel.“

Klaki tók við gulrótinni og tróð henni inn í snjóhausinn sinn. Hann dró djúpt andann. „Ahhh, “ andvarpaði hann. „Þetta er miklu betra. Nú get ég fundið lykt aftur! Ég get fundið ilminn af jólunum.“ Klaki hikaði aðeins. „Ef það verða nokkur jól, það er að segja.“

„Hvernig er ilmurinn af jólunum?“ spurði Zeta.

Klaki lét sig dreyma. „Jólin ilma eins og smákökur með súkkulaði og piparkökur. Já og mandarínur,“ sagði hann og lygndi aftur augunum og þefaði út í loftið.

„En hvað það hljómar dásamlega,“ sagði Zeta og hló góðlátlega að því hvernig Klaki lét. Allt í einu kom sterk vindhviða sem þyrlaði upp snjónum í kringum þau.

„Jæja, ég ætla að forða mér áður en það skellur á annar stormur,“ sagði Maddamma mús og gekk rösklega með teppið sitt í átt að holunni.

„En áður en þú ferð kæra Maddamma mús, langar mig að spyrja hvort þú kannast nokkuð við þennan ullarsokk,“ sagði Zeta og dró fram stóra ullarsokkinn.

Maddamma mús tók andköf. „Hvar funduð þið þennan sokk?“ spurði hún undrandi.

„Við fundum hann hér í snjónum,“ útskýrði Zeta. „Þekkir þú einhvern sem er nógu stór til að eiga þennan sokk?“

Maddamma mús leit flóttalega í kringum sig. Snjórinn fauk til í kringum þau. „Nú, auðvitað snjótröllið,“ sagði Maddamma mús afar lágt, grafalvarleg á svipinn.

„Snjótröllið!“ hrópaði Klaki. „Býr snjótröll í Jólalandi?“ Hann var skelfingu lostinn. Zetu brá dálítið.

„USS!“ sagði Maddamma mús. „Ekki svona hátt! Ég heyrði hinar mýsnar tala um að það sé snjótröllið sem valdi þessum stormi.“

Klaki hnipraði sig saman eins og hann væri að reyna að fela sig.

„Hvar býr þetta snjótröll?“ spurði Zeta og ákvað að láta óttann ekki ná tökum á sér.

„Nú, þarna! Í Mikilfenglega fjalli auðvitað,“ sagði Maddamma mús og benti á stóru fjöllin fram undan. „Snjótröllið er stórt og luralegt og getur auðveldlega traðkað niður litla mús eins og mig. Þess vegna held ég mig í hæfilegri fjarlægð,“ sagði Maddamma mús og gjóaði augunum til stóru fjallanna. „Jæja, veriði sæl. Og ég vona að snjótröllið éti ykkur ekki,“ sagði Maddamma mús og hvarf ofan í holuna sína.