15. Upp á fjall

Úr SignWiki
Stökkva á: flakk, leita

15. Upp á fjall

Stuttu seinna voru Zeta og Klaki komin að rótum Mikilfenglega fjalls. Zeta var búin að binda ullarsokkinn á bakið á sér með reipi gamla refsins.

„Ég trúi því ekki að þú hafir sannfært mig um að koma með þér að handsama tröll,“ sagði Klaki og skalf allur af stressi og kvíða.

„Við verðum að vera tvö ef við ætlum að handsama hann og koma aftur á ró í Jólalandi,“ sagði Zeta og bisaði við að klífa upp brattann.

„Hvers vegna geta ekki bara verið venjuleg jól? Ég er engin ofurhetja. Ég er bara lítill snjókarl sem vill halda jólin sín,“ röflaði Klaki á meðan hann fikraði sig áfram á eftir Zetu.

„Allir geta verið hugrakkir og breytt heiminum. Sama þótt þeir séu bara litlir snjókarlar,“ sagði Zeta sem átti fullt í fangi með að halda jafnvægi í bröttum klettunum.

„Ég veit ekki..“ sagði Klaki efins.

Allt í einu hrasaði Zeta um eitthvað sem lá hálfgrafið ofan í snjónum, og hún datt kylliflöt á magann. Klaki flýtti sér til hennar og hjálpaði henni á fætur.

„Það er eitthvað hérna,“ sagði Zeta og gróf hendurnar í snjóinn. Klaki hjálpaði henni. Upp úr snjónum drógu þau annan ullarsokk sem var alveg eins og hinn.

„Við erum greinilega á réttri leið,“ sagði Zeta alvarleg á svip. Á sömu stundu heyrðust ógurlegar drunur ofan úr fjallinu og allt hristist. Snjóskaflar hrundu yfir Zetu og Klaka svo þau urðu að beygja sig niður og hjúfra sig saman.

„Æ, æ, æ,“ hljóðaði Klaki. „Væri ekki skynsamlegt að snúa við núna?“ spurði Klaki skjálfandi röddu.

En Zeta lét sem hún heyrði ekki í Klaka og hélt einbeitt áfram að klífa fjallið og dró stóra ullarsokkinn með sér. Klaki staulaðist á eftir henni. Skyndilega blasti við þeim risastórt hellisop. Þau voru komin að helli snjótröllsins!