18. Atsjú!

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

18. Atsjú!

Tumi snjótröll hélt áfram að tala. „Ég er bara búinn að vera inni í hellinum mínum í marga daga því mér er svo kalt. Ég er nefnilega búinn að týna hlýju ullarsokkunum mínum. Eldurinn minn slokknaði og nú er ég bara alveg að frjósa og kominn með kvef,“ sagði Tumi og saug dálítinn dropa af hori upp í nefið. Zeta stóð á fætur og náði í stóru ullarsokkana sem lágu fyrir utan hellinn. „Eru þetta kannski sokkarnir sem þú týndir?“ spurði Zeta og lagði ullarsokkana á gólfið fyrir framan snjótröllið.

„Sokkarnir mínir!“ hrópaði Tumi og hoppaði um af gleði svo að hellirinn hristist.

„Þeir eru reyndar dálítið blautir,“ sagði Zeta afsakandi.

„Það er allt í...,“ Tumi hætti að tala og gretti sig ógurlega, „ah ahh ahh, ATSJÚ!“ hnerraði hann síðan gríðarlega hátt svo að Zeta og Klaki þeyttust út í hinn enda hellisins.

Tumi snjótröll var hálf vankaður eftir þennan kröftuga hnerra og það heyrðust miklar drunur í hellinum. Nú gerðist dálítið undarlegt. Út frá hnerranum myndaðist lítill hvirfilvindur inni í hellinum. Vindur sem blés í hringi og færðist rólega í áttina að hellisopinu.

„ATSJÚ!“ hnerraði Tumi aftur og annar hvirfilvindur fór af stað inni í hellinum.

„ATSJÚ!“ hnerraði hann í þriðja sinn og enn einn hvirfilvindurinn fór af stað. Zeta trúði ekki sínum eigin augum. Hvað var að gerast?

Við hellismunnann sameinuðust hvirfilvindarnir og ferðuðust út úr hellinum og þyrluðu upp snjónum fyrir utan. Zeta og Klaki horfðu agndofa á þessa tröllahnerra sem breyttust hægt og rólega í snjóbyl fyrir utan. Þau færðu sig öll að hellisopinu og horfðu á stormsveipinn stóra ferðast niður fjallshlíðina og feykja burt öllu sem á vegi hans varð í Jólalandi.

Tumi snjótröll horfði á eftir hnerranum sínum og varð sorgmæddur. „Ó nei,“ sagði hann. „Þetta er allt mér að kenna. Allt er eyðilagt út af mér.“ Hann varð algjörlega miður sín. „Ég hef eyðilagt jólin!“