20. Skreytt hátt og lágt

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

20. Skreytt hátt og lágt

Þegar Bíbí var flogin af stað sneri Klaki sér að Tuma. „Áttu eitthvað jólaskraut?“ spurði hann. Tumi leit í kringum sig. „Nei því miður. Ég hef aldrei átt svoleiðis.“

„Ég er með hugmynd!“ sagði Zeta og gekk rakleitt að skápnum í hellinum. „Við búum bara til okkar eigið skraut! Ég las eitt sinn bók um hvernig hægt er að skreyta hús með bara ósköp venjulegum hlutum.“

Hún opnaði skápinn upp á gátt. Inni í honum voru alls konar pottar og pönnur, handklæði, þvottapokar, gafflar og skeiðar og fleira eldhúsdót. Hún tók reipið, sem hún hafði tekið með til að handsama snjótröllið, og benti Klaka og Tuma á að aðstoða sig við að binda snærið upp svo það hengi þvert yfir hellinn. Síðan sýndi hún þeim hvernig hægt var að hengja ýmsa ósköp venjulega hluti á reipið og nota þá fyrir skraut. Brátt var hellirinn orðinn vel skreyttur með búsáhöldum og efnistuskum. Zeta leit ánægð yfir hellinn.

„Stórgóð hugmynd, Zeta! Þetta lítur vel út hjá okkur,“ sagði Klaki ánægður.

Tumi náði í stóra skál og fyllti hana af mandarínum. Skálina setti hann síðan á borðið.

„Já, þetta er bara nokkuð gott,“ sagði Zeta stolt.

„Þakka ykkur fyrir,“ sagði Tumi. „Ég hef aldrei fengið vini í heimsókn.“

Allt var tilbúið. Nú vantaði bara gestina. Klaki sneri sér að Zetu. „Ég vona bara að þau þori að mæta,“ hvíslaði hann. Zeta var einmitt að hugsa það sama.