Að vera táknmálstúlkur

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
Túlkar að störfum

Árný Guðmundsdóttir og Gerður Sjöfn Ólafsdóttir

Táknmálstúlkar starfa á öllum sviðum daglegs lífs, allt frá vöggu til grafar. Þeir einstaklingar sem hafa táknmál sem sitt fyrsta mál nýta sér táknmálstúlka til að fá þjónustu frá opinberum stofnunum sem og einkaaðilum. Sem dæmi má nefna að heyrnarlausar verðandi mæður þurfa á túlkun að halda í mæðraeftirliti, heyrnarlaus börn þurfa túlka á sundnámskeiðum, heyrnarlausir unglingar nota túlka við ýmiskonar tómstundaiðkun og nám, fullorðnir heyrnarlausir notfæra sér þjónustu túlka á starfsmannafundum, húsfundum, foreldrafundum, við fermingar og fleira og fleira. Þar sem túlkar eru viðstaddir á ýmsum viðkvæmum stundum í lífi heyrnarlausra er mjög mikilvægt að allir átti sig á að trúnaðarskylda táknmálstúlka er einn mikilvægasti grundvöllur starfsins og nær bæði til einstaklinga og staða.

Eins og staðan er í dag fer stærsti hluti túlkastarfsins fram í skólum á ýmsum stigum en það má að einhverju leyti rekja til skorts á fjármagni til túlkunar, en þann 12. október 2004 veitti Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra 10 milljónum á ári í þrjú ár til túlkunar í daglegu lífi og var það til mikilla bóta fyrir heyrnarlausa. Einungis á heilbrigðissviði eru réttindi heyrnarlausra til táknmálstúlkunar tryggð með lögum.

Táknmálstúlkar vinna á mörgum stöðum og koma víða við. Táknmálstúlkun er ekki einungis þannig að túlkurinn sitji og túlki allt sem fram fer, heldur er túlkun alltaf samvinna. Samvinna túlksins og allra þeirra sem nýta sér þjónustu hans. Til þess að samvinnan gangi vel er mikilvægt að allir í aðstæðunum séu meðvitaðir um það. Annað atriði sem auðveldar túlkun á allan hátt er undirbúningur táknmálstúlksins, ýmist með fyrirliggjandi gögnum eða öðrum upplýsingum varðandi verkefnið áður en það hefst.

Fagstétt táknmálstúlka er ung stétt. Einungis eru tíu ár eru síðan fyrstu táknmálstúlkarnir útskrifuðust frá Háskóla Íslands en að sjálfsögðu hafa heyrnarlausir fengið aðstoð við að eiga samskipti við heyrandi fólk í gegnum tíðina. Þeir sem veittu þessa aðstoð áður fyrr voru ýmist fjölskyldumeðlimir, ættingjar, vinir, vinnufélagar eða gamlir kennarar.

Táknmálstúlkur er brú á milli tveggja menningarheima, því ekki eru einungis túlkuð töluð orð, heldur líka önnur tjáning sem notuð er og er leitast við að koma menningarmun til skila þannig að upplifun þeirra sem eiga í samskiptum séu sem áþekkust.

Í starfi táknmálstúlks felst ekki ábyrgð á aðstæðum, þeir eru ekki kennarar, læknar, félagsráðgjafar eða annað slíkt. Ábyrgð túlksins nær eingöngu til þess að samskiptin gangi eins vel fyrir sig og hugsast getur. Þeir sem eru þátttakendur í samtalinu/aðstæðunum bera ábyrgð á því og innihaldi þess.

Til þess að þjónustan verði sem best er nauðsynlegt að túlkur fái hlé í 5-10 mínútur á hverjum klukkutíma. Ef verkefni taka lengri tíma en einn og hálfan klukkutíma er þeim sinnt af tveimur túlkum í einu sem skiptast á að túlka í 15-20 mínútur í senn. Þar sem táknmál er ekki alþjóðlegt, er starf okkar túlka aðallega fólgið í því að túlka á milli íslensks táknmáls (ÍTM) og talaðrar íslensku og í einstaka tilfellum milli erlends raddmáls og ÍTM.

Starfandi táknmálstúlkar hér á landi hafa nær allir gengið í gegnum þriggja ára nám við Háskóla Íslands og lýkur því námi nú með BA-prófi í táknmálstúlkun. Um þessar mundir eru þrettán ár síðan menntun í táknmálsfræði hófst í fyrsta sinn við HÍ. Námið skiptist í tvo hluta, fyrri hlutinn er tvö ár í táknmáli, sem kennt er á svipaðan hátt og önnur tungumál. Seinni hlutinn er táknmálstúlkun sem er eins árs nám þar sem farið er í siðfræði og öll atriði túlkunar og túlkunarfræða.

Til viðbótar við háskólamenntunina þarf táknmálstúlkur einnig að hafa gott vald á íslensku, hafa góða almenna þekkingu og vera vel að sér í menningu heyrnarlausra. Táknmálstúlkar þurfa einnig að vera sveigjanlegir á margan hátt því ekki er alltaf gert ráð fyrir túlkum fyrirfram í aðstæðunum.

Þar sem við höfum unnið við þetta fjölbreytta, skemmtilega og krefjandi starf í tíu ár höfum við séð miklar breytingar gagnvart táknmáli og heyrnarlausum. Í dag er mun sjálfsagðara að nota túlk en fyrir tíu árum og almenningur hváir ekki í hvert skipti sem táknmálstúlkar segir til starfsheitis. Táknmál er mun sýnilegra í samfélaginu en það var og þá um leið einnig heyrnarlausir.

Greinarhöfundar eru táknmálstúlkar, útskrifaðir frá HÍ 1997