Er táknmál alþjóðlegt

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Er táknmál alþjóðlegt ?

Þessi spurning er mjög algeng hjá þeim sem vita lítið sem ekkert um táknmál. Fólk á það nefnilega til að halda að allt táknmál í heiminum sé eins. Þetta er í raun bara eins og að halda að allir í heiminum tali ensku, sem er vitaskuld langt frá því að vera raunin. Íslendingar tala íslensku á meðan Rússar tala rússnesku og Þjóðverjar þýsku. Það eru jafnvel til lönd þar sem fleiri en eitt tungumál er talað, t.d. er enska og gelíska töluð á Írlandi. Táknmál er engin undantekning, þau skipta hundruðum en öll málin hafa eigin málfræði og orðaforða. Stutta svarið er því nei, táknmál er ekki alþjóðlegt.

Hins vegar, á meðan málvísindamenn í raddmáli bjuggu til Esperanto, var Gestuno búið til í heimi táknmálstalandi. Draumurinn var auðvitað að allir myndu tala eitt og sama málið og gætu þannig haft samskipti við fólk víðsvegar um heiminn. En hvorki Esperanto né Gestuno náðu að festa sig í sessi þar sem málin voru ekki ræktuð og fengu því ekki að dafna í menningarsamfélaginu. Gestuno er táknkerfi sem samanstendur af algengum og vel þekktum táknum. Þessi tákn eru gjarnan notuð á alþjóðlegum ráðstefnum og öðrum opinberum viðburðum til þess að fólk frá ýmsum löndum geti haft samskipti sín á milli, en fólk á það til að tjá sig með því að nota tvö eða fleiri táknmál og hræra þeim saman svo útkoman verði skiljanlegt. Nú er í gangi verkefni sem kallast Signs2cross þar sem fólk getur lært alþjóðleg tákn á vefsíðunni www.signs2cross.signwiki.org.

Þegar öllu er á botninn hvolft þá er ekki til eiginlegt alþjóðlegt táknmál og ástæðan er einfaldlega sú að heimurinn er of stór til þess. En táknmál hefur það umfram raddmál að það er auðveldara að gera sig skiljanlegan í gegnum það. Tungumál eru lifandi á meðan fólk er líka lifandi.


Heimildir:

http://deaf.is/Fræðsla/Alþjóðlegt_táknmál

http://www.acm5.com/signs2cross/

http://www.shh.is/

http://www.visindavefur.is

Höfundur: Áslaug Ýr Hjartardóttir, sumarstarfsmaður á SHH.