Kennaraefni

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Fræðsluefni fyrir kennara

Hvað eru táknmál?

Táknmál er ekki alþjóðlegt mál heldur á hver þjóð sitt táknmál, jafnvel fleiri en eitt. Margir líta svo á að það væri þægilegt fyrir heyrnarlaust fólk ef það talaði allt sama táknmálið. Það kann vel að vera enda væri áreiðanlega mjög þæginlegt ef öll heimsbyggðin talað sama tungumálið. Staðreyndin er hins vegar sú að tungumál þróast í hverju málsamfélagi fyrir sig og því yrði alþjóðlegt táknmál, líkt og alþjóðlegt raddmál, fljótt að verða að mörgum mállýskum, sem síðar yrðu að sérstökum tungumálum. Þá eru mál og menning samofin og þar sem menningarheimar geta verið æði ólíkir þá endurspegla tungumálin einnig þennan fjölbreytileika. Táknmál eru töluð með höndum, svipbrigðum og líkamsfærslum og þau eru numin með sjón. Íslenska táknmálið er ekki íslenska töluð með höndunum heldur fullgilt mál með eigin málfræði, óháða íslenskri málfræði. Ef táknum er raðað upp í setningu samkvæmt íslenskum málfræðireglum verður setningin málfræðilega röng á íslensku táknmáli og getur þannig valdið misskilningi. Þar sem miðlunarháttur táknmála býður upp á sjónræna endurspeglun raunveruleikans er margt líkt með táknmálum ólíkra þjóða. En upplifanir fólks hafa áhrif á endurspeglun raunveruleikans og því verða til ólík tákn í ólíkum táknmálum yfir sama fyrirbærið. Táknið fyrir hest í íslenska táknmálinu er t.d. mjög ólíkt tákninu fyrir hest í bandaríska táknmálinu en bandaríska táknið er eins og táknið fyrir kanínu í íslenska táknmálinu.

Lagaleg staða

Lagaleg staða íslenska táknmálsins breyttist verulega þann 7. júní 2011 þegar samþykkt voru lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011. Þar voru tungumálin tvö skilgreind jafn rétthá og var það mikill áfangasigur fyrir táknmálssamfélagið á Íslandi.

Hverjir tala táknmál?

Döff fólk talar táknmál og táknmálssamfélagið samanstendur af miklu fleiri einstaklingum heldur en heyrnarlausum, það eru margir heyrnarskertir og daufblindir sem tilheyra hópnum, auk fjölskyldna þeirra, foreldra, systkina, barna og tengdafjölskyldna sem eru oft táknmálstalandi og þátttakendur í táknmálssamfélaginu. Samkvæmt nýju lögunum eiga allir þeir sem telja sig þurfa íslenskt táknmál rétt á því að læra það og nota til samskipta.

Hvar læra börn táknmál?

Börn sem fæðast heyrnarlaus eiga í flestum tilfellum heyrandi foreldra sem eru ekki táknmálstalandi, því þurfa þessar fjölskyldur aðstoð við máltöku barnanna og fá hana frá táknmálskennurum, Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og leikskólanum Sólborg í Reykjavík svo einhverjir séu nefndir. Flest þessara barna fara líka í talþjálfun hjá talkennurum, sérstaklega þau sem fá kuðungsígræðslu. Þau börn sem eiga táknmálstalandi foreldra læra málið af foreldrum sínum á sama hátt og heyrandi börn læra af sínum heyrandi foreldrum. Táknmál er það tungumál sem döff börnum er eðlilegast að læra. Þau börn sem læra táknmál strax frá fæðingu – hvort sem þau eru döff eða heyrandi geta átt í vitrænum samskiptum við foreldra sína löngu fyrir eins árs aldur, þar sem auðveldara er fyrir þau að ná valdi á þeirri tjáningu en raddmáli.

Hvað er líkt og ólíkt íslensku

Þó að íslenska táknmálið og íslenska séu ólík að mörgu leyti eiga þau þó ýmislegt sameiginlegt. Gaman getur verið að velta fyrir hvað er líkt og hvað ólíkt á milli þessara tveggja mála sem lögum samkvæmt eru jafnrétthá hér á landi. Ef við skoðum það efni sem kennarar hafa aðgang að hér á SignWiki til að sýna nemendum sínum getum við litið á nokkur þessara atriða. Í kennsluefninu sem kennarar á leikskólasstigi geta notað með sínum nemendum má sjá að táknið fyrir litinn fjólublár á ekkert skylt við íslenska orðið. Táknið tengist glóðarauga en ekki samsetningu á fjóla og blár.

Mörg tákn í íslenska táknmálinu eiga samt sínar rætur úr íslenskunni og hafa orðið til upp úr fingrastöfun, eins og táknið ball. Einnig eru mörg nafnatákn tengd fyrsta staf í nafni viðkomandi. Nafnatákn eru tákn sem hver og einn einstaklingur sem kemur inn í táknmálssamfélagið fær, það er tákn sem tengist viðkomandi manneskju en ekki beint nafninu – ekki fá allir sem heita Jón sama nafnatáknið. Það getur tengst nafni viðkomandi, útliti eða persónuleika.

Eins og sagði hér að ofan er hægt að segja allt á táknmáli og það er líka hægt að syngja, í myndböndunum sem eru inni á síðunni eru vinsæl íslensk lög sungin á táknmáli.

Námsefni fyrir táknmálstalandi einstaklinga

Mynd ibok.PNG

Á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra er unnið að námsefnisgerð fyrir táknmálstalandi nemendur, eitt af þeim verkefnum sem nú er unnið að eru I-bækur (Ibooks) fyrir Ipad. Þá eru bækurnar skannaðar inn og textinn þýddur á táknmál, á hverri opnu er textinn, myndirnar sem fylgja og textinn fluttur á táknmáli.

Þeim sem hafa áhuga á að nálgast þetta efni fyrir sína nemendur er bent á að hafa samband við kennslustjóra táknmálssviðs á Shh, Margréti Gígju Þórðardóttur gigja@shh.is

Viðbótarefni

Þeir sem hafa áhuga á að vita meira um íslenska táknmálið og táknmálsamfélagið á Íslandi er bent á greinarnar Án táknmáls er ekkert líf eftir Valgerði Stefánsdóttur og Táknmál – tungumál heyrnarlausra Rannveigu Sverrisdóttur sem finna má á www.signwiki.is. Þá geta áhugasamir einnig haft samband við Árnýju Guðmundsdóttur táknmálstúlk (arny@shh.is) og Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur málfræðing (kria@shh.is), starfsmenn Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra.