14. Handsamið tröllið

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search
The printable version is no longer supported and may have rendering errors. Please update your browser bookmarks and please use the default browser print function instead.

14. Handsamið tröllið

Klaki gekk rakleitt að höndinni sinni og hrifsaði hana til sín svo könglarnir duttu í gólfið. Hann stakk hendinni á kaf í litla snjóbúkinn sinn. Þvílíkur léttir!

Gamli refurinn var miður sín. „Æ, kæri vinur. Mér þykir leitt að hafa óvart notað höndina þína sem jólatré. Ég sé bara svo agalega illa án gleraugnanna.“ Gamli refurinn klappaði Klaka á bakið.

„Allt í lagi,“ andvarpaði Klaki, „þetta er miklu betra.“ Hann teygði úr sér. „Nú er ég orðinn heill aftur. Nú gengur betur að faðma vini mína um jólin og baka piparkökur þegar ég hef tvær hendur - það er að segja - ef það verða einhver jól,“ bætti hann við og varð aftur hnugginn.

„Er þá mikilvægt að faðma aðra á jólunum?“ spurði Zeta.

„Ó já. Það er svo gaman að vera með vinum og fjölskyldu á jólunum og faðmast og hlæja saman,“ sagði Klaki dreyminn. Zeta varð hugsi. Jólin eru þá tími sem maður á með vinum sínum og fjölskyldu. Jólin eru tími sem maður faðmast. Þetta var allt að skýrast í kollinum á henni.

„En af hverju heldurðu að það verði ekki jól?“ spurði gamli refurinn Klaka.

„Af því að allt sem minnir á jólin fauk burt í storminum,“ sagði Klaki. „Húsið mitt, jólatréð og gjafirnar. Það eina sem ég er með er þetta,“ bætti hann við og dró fram stóra ullarsokkinn og sýndi gamla refnum. Refurinn andvarpaði djúpt.

„Já, þetta er eins og mig grunaði,“ sagði gamli refurinn. Hann gekk að borðinu og fékk sér sæti.

„Svona snjóhríð hefur ekki sést í Jólalandi í mörg ár og það er bara ein ástæða fyrir því: Snjótröllið ógurlega í fjöllunum. Eigandi ullarsokksins.“ Klaki var byrjaður að skjálfa. Zeta var farin að efast stórlega um að þessi ferð hennar til Jólalandsins hefði verið góð hugmynd og langaði bara heim í hlýjuna á bókasafninu.

„Snjótröllið er ófrýnilegt í útliti, með lafandi eyru og stóran fót. Eða, svo er sagt. Ég hef reyndar aldrei séð Snjótröll,“ bætti gamli refurinn og gerði smá hlé á máli sínu. „En ég hef heyrt margar sögur af því síðan ég var lítill yrðlingur. Snjótröll geta búið til ægilega snjóbylji sem feykja öllu í burtu. Eina leiðin til að stoppa storminn er að handsama tröllið.“ Refurinn horfði djúpt í augun á Zetu og Klaka.

„Eruð þið nógu hugrökk til að handsama snjótröllið?“

Klaki fraus eitt andartak. „Ég veit það nú ekki alveg,“ svaraði hann skjálfandi röddu. „Getur þú ekki bara farið?“

„Ég er orðinn allt of gamall til að leggja í svona ævintýraferð. Jólaland þarf á hjálp ykkar að halda,“ bætti gamli refurinn við og horfði vongóður á Klaka og Zetu.

„Já!“ svaraði Zeta. „Saman getum við Klaki handsamað tröllið og bjargað Jólalandi frá storminum.“ Hún dró djúpt andann og setti upp bros. Hún hafði oft lesið bækur um hetjur. Þær láta óttann ekki stoppa sig.

„Gott! Mikilfenglega fjall er ekki langt héðan. Þar er hellirinn,“ svaraði gamli refurinn. Hann benti með stafnum sínum í áttina að glugganum.

„Æ, æ, æ,“ sagði Klaki og hristi hausinn og greip fyrir augun en Zeta bara brosti: „Áttu nokkuð reipi?“