Málstýring íslenska táknmálsins. Um hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál og málsamfélags ÍTM

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Höfundur: Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra og ritari Málnefndar um íslenskt táknmál. 2014 [1]

Óheimilt að afrita greinina, að hluta til eða í heild, án þess að vitna til þess hvaðan textinn kemur upphaflega. Í heimildaskrá verka skal vitna á eftirfarandi hátt:

Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2014. Málstýring íslenska táknmálsins. Um hlutverk Málnefndar um íslenskt táknmál og málsamfélags ÍTM. SignWiki. Sótt [dagur. mánuður ár] af http://signwiki.is/index.php/Málstýring_íslenska_táknmálsins._Um_hlutverk_Málnefndar_um_íslenskt_táknmál_og_málsamfélags_ÍTM.


Inngangur

Þegar eitt tungumál er valið umfram annað sem opinbert tungumál þjóðar eða þegar ákveðið er hvaða tungumál skuli notað í menntakerfinu, dómskerfinu og í stjórnkerfinu öllu geta slíkar ákvarðandi haft áhrif á stöðu minnihlutamála. Samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska opinbert mál á Íslandi, sbr. 1. gr. Í lögunum er hins vegar einnig kveðið á um að íslenska og íslenskt táknmál séu jafnrétthá mál og að ríki og sveitarfélögum sé skylt að vernda íslenska táknmálið og veita þjónustu á íslensku táknmáli þeim sem þess þurfa, sbr. 13. gr. Í lögunum er einnig kveðið á um skipun Málnefndar um íslenskt táknmál og hefur sú nefnd starfað síðan í lok árs 2011.

Skipun málnefndarinnar og setning laga nr. 61/2011 hefur haft áhrif á málstýringu íslenska táknmálsins og styrkt stöðu þess verulega. Í kafla 2 verður fjallað um málstýringu almennt og vikið að fjórskiptingu Reagans (2010) á málstýringu. Þá verður fjallað um Málnefnd um íslenskt táknmál og hlutverk hennar í kafla 3. Í kafla 4 verður málstýring íslenska táknmálsins skoðuð út frá verkum málnefndarinnar, hlutverki málsamfélags íslenska táknmálsins og fyrrgreindum fjórum tegundum málstýringar. Efni greinarinnar verður síðan dregið saman í kafla 5.


Málstýring

Málstýring (e. language planning, language management) er undirhugtak málstefnu (e. language policy). Samkvæmt Spolsky (2004:9) getur málstefna „tekið til allrar málhegðunar, málafstöðu og málstýringarákvarðana í tilteknu samfélagi eða stjórnarfarseiningu.“ [2] Ari Páll Kristinsson skilgreinir hugtökin á eftirfarandi hátt:


(1) Málstefna: ráðandi málsamfélagsleg vitund og dulin og sýnileg ferli í tilteknu málsamfélagi; varðar bæði stöðu og form máls (Ari Páll Kristinsson 2006:47).


(2) Málstýring: sá hluti málstefnu sem felst í sýnilegri viðleitni til að hafa áhrif á stöðu og form máls (Ari Páll Kristinsson 2007:105).


Þessir sýnilegu þættir geta verið ákvarðanir um stafsetningareglur, framburð, merkingu orða, hvaða afbrigði tungumáls skuli nota opinberlega eða við aðrar formlegar aðstæður og hvers konar ritunarkerfi skuli nota þegar tungumálið er ritað. Þeir geta einnig verið lög og reglur um aðgengi málminnihlutahópa að opinberum skjölum til að rétta hlut málsins og/eða málhafanna gagnvart meirhlutamálinu og málhöfum þess. Málstýring hefur áhrif á stöðu og vald tungumáls og málhafa þess. Málstýringu er hægt að nota til að efla eða bæla ákveðna hópa samfélagsins og hefur hún hvað mest áhrif innan menntakerfisins. Málstýring getur haft áhrif á aðgang ákveðinna hópa að menntun og getur mótað viðhorf barna til tiltekinna hópa í samfélaginu (Reagan 2010:33-34 og Ari Páll Kristinsson 2007:102-105).

Málstýringu er gjarnan skipt upp eftir því hverju er stýrt. Lengst af var málstýringu skipt í stöðustýringu (e. status planning) og formstýringu (e. corpus planning). Á undanförnum áratugum hafa komið fram tillögur að frekari greiningu málstýringar. Þar má helst nefna máltökustýringu (e. aquisition planning) [3], notkunarsviðastýringu (e. usage planning), virðingarstýringu (e. prestige planning), viðhorfastýringu (e. attitude planning) og orðræðustýringu (e. discourse planning) (sjá hugtök og umræðu um uppruna þeirra hjá Ara Páli Kristinssyni 2007:107-108, nmgr. 11).

Reagan (2010) fjallar um málstefnu og málstýringu táknmála. Hann greinir málstýringu í fernt: stöðustýringu, formstýringu, máltökustýringu og viðhorfastýringu. Engin tegund málstýringar er óháð hinum.

Stöðustýring og formstýring eru t.a.m. nátengdar en stöðustýring lýtur að stöðu málsins innan stjórnkerfisins, útbreiðslu þess og notkunarsviði en formstýring lýtur að því málvísindalega formi málsins sem samþykkt hefur verið af stjórnkerfinu. Þetta tvennt hangir óneitanlega saman. Staða tungumáls, útbreiðsla og notkunarsvið er háð því að tungumálið búi yfir víðtækum orðaforða og jafnframt veitir víðtækari staða tungumáls í samfélaginu aukin tækifæri til útbreiðslu formsins, s.s. ritmálsstaðals eða nýyrða (sjá frekari umræðu hjá Ara Páli Kristinssyni 2007:102 og Kaplan og Baldauf 1997:49).

Stöðustýring og máltökustýring tengjast að því er varðar útbreiðslu og notkunarsvið tungumáls. Þá hafa viðhorf til tungumála einnig áhrif á útbreiðslu þeirra og notkun. Almenn útbreiðsla tungumáls, t.a.m. innan stjórnkerfis fellur undir stöðustýringu en aukinn fjöldi málhafa eða málnotenda fellur undir máltökustýringu. Breytt virkni, form eða notkun tungumáls vegna stöðu- eða formstýringar getur haft áhrif á fjölda málnotenda og viðhorf til tungumála og því ætti ávallt að huga að þessum þáttum samhliða eða í samvinnu. Hér að neðan verður fjallað nánar um þær fjórar tegundir málstýringar sem Reagan (2010) gerir grein fyrir.


Stöðustýring

Stöðustýring vísar til ákvarðana stjórnvalda um notkun máls á ýmsum sviðum. Stöðustýring á t.a.m. við þegar tekin er ákvörðun um opinber tungumál en einnig þegar teknar eru ákvarðanir um hvaða tungumál skuli notað innan skólakerfis eða á upplýsingaskiltum. Stöðustýring getur átt sér stað milli ríkja (t.d. ákvarðanir um vinnumál innan ríkjasambanda), innan ríkis (t.d. er varðar opinbert mál ríkis) og jafnvel innan ákveðinna svæða (sérstaklega m.t.t. menntamála). Stöðustýring tengist fremur menningarlegum, lýðfræðilegum og hagfræðilegum þáttum en stendur að mestu leyti utan við málfræðilega þætti (Reagan 2010:51-52). Þó hefur form tungumáls áhrif á stöðu þess þar sem form málsins verður að hafa þá virkni sem staða þess krefst. Þetta á t.a.m. við um nýyrðasmíð og ræktun orðaforða í sérgreinum (sbr. umræðu hjá Ara Páli Kristinssyni 2007:102).


Formstýring

Formstýring vísar til tilrauna til að staðla og jafnvel hreinsa mál. Formstýring tengist að mestu leyti málfræðilegum þáttum þar sem einblínt er á málfræðileg atriði. Formstýring er oft afleiðing stöðustýringar. Það er vegna þess að stöðustýring felst m.a. í því að ákveða hvaða málbrigði skuli staðla og síðan verður það málbrigði viðfangsefni formstýringarinnar. Undir formstýringu falla nýjungar, breytingar og endurbætur á ritunarkerfi og stafsetningu, framburður, formgerðarbreytingar, aukning orðaforða, einföldun málsniða og stíla eða þróun til meiri fjölbreytni þeirra og gerð kennsluefnis og orðabóka (sjá Reagan 2010:51-53 og Kaplan og Baldauf 1997:38). Orðaval, stafsetning og merkjaskýringar í orðabókum og formið á efni kennslubóka er oft mótað eftir fyrir fram ákveðnum staðli. Þá geta sömu þættir í mikið notuðum kennslubókum og orðabókum einnig mótað staðalinn. Reglur um form tungumála, s.s. er varða ritunarkerfi, framburð og stafsetningarreglur, eru sjaldnast ákvarðaðar án árekstra eða deilna á milli þeirra sem nota tungumálið.


Máltökustýring

Máltökustýring tiltölulega nýtt undirhugtak málstýringar. Máltökustýring á sér stað þegar einblínt er á útbreiðslu tungumálsins, á fjölda þeirra sem nota tungumálið, einkum þó nýliðun í hópi málnotenda (Reagan 2010:51-52). Máltökustýring hefur einnig verið kölluð leið til mótunar málmenntunarstefnu (e. language education policy) (sjá Spolsky 2004:46). Máltökustýring svarar spurningum á borð við þessar; á hvaða máli skal námsefni miðlað og ef sama málið er ekki notað í gegnum allt skólakerfið, hvenær í kerfinu er best að þær breytingar eigi sér stað? Hvenær á að kenna börnum að lesa og skrifa og á hvaða tungumáli/tungumálum? Hvaða tungumál önnur eiga börnin að læra, hvernig eiga þau að læra þau og hvert er markmiðið með kennslu þeirra (Reagan 2010:53)? Sumu verður að svara út frá samhengi hverju sinni en öðru má svara með rannsóknum sem sýna t.d. fram á að börn læra best í gegnum móðurmálið sitt og að örfáar kennslustundir á viku nægja ekki til að börn tileinki sér tungumál (sjá t.d. Ball 2010, Ouane og Glanz 2010 og Singleton og Newport 2004).


Viðhorfastýring

Viðhorfastýring er viðbót Reagans (2010) og hefur hingað til verið hluti af stöðustýringu. Haarmann (1990:104-108) lagði þó til að fjallað yrði um virðingarstýringu sem sérstakt viðfangsefni. Hér skal athugað að orðin sem þessi tvö hugtök vísa til, þ.e. virðing (e. prestige) og viðhorf (e. attitude), eru nátengd. Bæði virðing og viðhorf eru því í raun viðfangsefni þeirrar tegundar málstýringar sem Regan kallar viðhorfastýringu. „Viðhorfastýring vísar til tilrauna til þess að breyta viðhorfi einstaklinga eða hópa til tiltekins tungumáls (þeirri eigin eða annarra) eða til eintyngis, tvítyngis eða fjöltyngis“ (Reagan 2010:51) [4]. Markmið viðhorfastýringar er m.a. að auka skilning og umburðarlyndi gagnvart fjöltyngi og fjölbreytileika tungumála í stórum samfélögum og bæta viðhorf til tungumála sem hafa þurft að lúta í lægra haldi t.d. vegna breytinga í stjórnmálum (sjá Reagan 2010:54). Sallabank (2012:111-116) segir að til að auka fjölda málhafa þurfi ekki eingöngu að auka færni þeirra með kennslu (máltökustýringu) heldur skipti virðing fyrir málinu og það að fólk vilji læra málið einnig miklu máli (virðingarstýring). Þá segir hún einnig mikilvægt að málið sé sýnilegt í fjölmiðlum því það hefur jákvæð áhrif á máltöku og eykur virðingu fyrir málinu. Wilcox o.fl. (2012:395) telja virðingu meginatriði í mótun málstefnu, að virðing sé borin fyrir öllum tungumálum og rétti fólks til að velja það tungumál sem það vill nota.


Málnefnd um íslenskt táknmál

Þann 28. október 2011 skipaði mennta- og menningarmálaráðherra fimm nefndarmenn, og jafnmarga til vara, til setu í Málnefnd um íslenskt táknmál. Málnefndin hefur síðan þá fundað hér um bil mánaðarlega og tekið fyrir hin ýmsu málefni er varða íslenskt táknmál. Samkvæmt lögum nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls og nánari útlistun á hlutverki Málnefndar um íslenskt táknmál á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, skrifstofu málnefndarinnar, er ljóst að málnefndinni er falin sú ábyrgð að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um málstýringu og málstefnu íslenska táknmálsins.

Í 2. mgr. 7. gr. laga nr. 61/ 2011 er fyrst fjallað um Málnefnd um íslenskt táknmál. Þar segir m.a. að „hlutverk [M]álnefndar um íslenskt táknmál [sé] að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu íslensks táknmáls og notkun þess í íslensku þjóðlífi.“ Á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar segir enn fremur að hlutverk málnefndarinnar sé „að [...] styrkja stöðu [íslenska táknmálsins] og virðingu og beita sér fyrir aðgerðum til varðveislu þess. Í þessu felst m.a. að vinna að samræmi í táknanotkun og annarri stöðlun íslensks táknmáls sem tjáningarmiðils eftir því sem eðlilegt þykir og skynsamlegt getur talist“ (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum [án árs]). Þar segir einnig að „leita [skuli] umsagnar málnefndarinnar áður en settar eru reglugerðir eða annars konar fyrirmæli um íslenskt táknmál að svo miklu leyti sem einstök atriði heyra ekki undir aðra samkvæmt öðrum lögum. Um málstefnu og stöðu íslensks táknmáls skal leitað samvinnu við [M]álnefnd um íslenskt táknmál, sbr. 7. gr. [laga nr. 61/2011]“ (Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum [án árs]).

Vinnu málnefndarinnar undanfarin ár og markmið nefndarinnar á næstu árum má að mestu leyti flokka eftir fjórum tegundum málstýringar samkvæmt Reagan (2010). Málnefndin starfar eftir framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2011-2015 en á fundi sínum í mars 2013 flokkaði nefndin verkefni sín eftir þessum fjórum tegundum málstýringar og var niðurstaða fundarins sú að nefndin hefði lagt og skyldi áfram leggja mesta áherslu á máltökustýringu. Þar á eftir kæmu viðhorfastýring, stöðustýring og formstýring í þeirri röð. Eins og áður hefur komið fram þá skarast þessar tegundir málstýringar og því eru verkefni nefndarinnar ekki einskorðuð við ákveðna tegund málstýringar hverju sinni. Ástæða þess að máltökustýring er í forgangi hjá nefndinni er sú að þótt máltaka barna sé ávallt mikilvæg þá er hún gríðarlega brýnt málefni eins og staðan er á Íslandi í dag. Í skýrslu Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013, tveimur árum eftir setningu laga nr. 61/2011, kemur fram að málnefndin telji „táknmálið [...] ekki nægilega aðgengilegt og viðurkennt á þeim stöðum sem nauðsynlegt er svo að hægt sé að framfylgja lögunum“ (bls. 2). Málnefndin hefur „rökstuddan grun um að víða sé pottur brotinn í stefnumótun um málumhverfi og máluppeldi bæði heyrnarskertra/heyrnarlausra barna og barna heyrnarlausra foreldra hér á landi“ (bls. 12). Málnefndin telur „mikilvægast [...] að huga að börnunum og tryggja að þau fái gott máluppeldi, að málið þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til síns fyrsta máls, íslensks táknmáls, og til döff menningarheims“ (bls. 16).


Málstýring íslenska táknmálsins

Lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls hafa haft veruleg áhrif á málstýringu íslenska táknmálsins. Lögin leggja þær skyldur á herðar stjórnvalda að varðveita og hlúa að íslenska táknmálinu jafnt sem íslensku og að sjá til þess að bæði málin þróist og séu notuð. Með skipun Málnefndar um íslenskt táknmál öðlaðist samfélag heyrnarlausra opinberan málsvara íslenska táknmálsins en í nefndinni eru málvísindamenn, táknmálsfræðingar, málhafar, hagsmunaaðilar og táknmálskennarar.

Líklegt er að flestir hafi einhverja skoðun á tungumáli sínu séu þeir inntir eftir henni og er þátttaka samfélags heyrnarlausra á öllum sviðum málstýringar mikilvæg. Það er því brýnt að virkja samfélagið til þátttöku svo málstýring íslenska táknmálsins fari ekki einungis fram með miðstýringu Málnefndar um íslenskt táknmál í umboði Menntamálaráðuneytisins. Hins vegar er það ekki vænlegt til árangurs, ekki frekar en í öðrum málsamfélögum, ef allir meðlimir samfélagsins taka þátt í ákvarðanatöku og málstýringu. Málnefndin starfar í þágu íslenska táknmálsins og málsamfélags þess. Málhafar, sem og aðrir, geta sent fyrirspurnir, beiðnir og ábendingar til málnefndarinnar og nefndin kemur þeim síðan áfram til stjórnvalda. Málnefndin getur einnig leitað ráða hjá samfélagi heyrnarlausra og stjórnvöld geta leitað til málnefndarinnar.

Frá því nefndin var stofnuð hefur hún látið að sér kveða á ýmsum stöðum í opinbera kerfinu og komið að málstýringu íslenska táknmálsins á ýmsum sviðum. Hér að neðan verður gerð grein fyrir nokkrum veigamiklum þáttum í málstýringu íslenska táknmálsins á undanförnum árum.


Stöðustýring íslenska táknmálsins

Stærsta skrefið í stöðustýringu íslenska táknmálsins var stigið með setningu laga nr. 61/2011. Með þeim lögum er íslenska lögfest sem þjóðtunga Íslendinga og opinbert mál á Íslandi, sbr. 1. gr. Í 8. gr. laganna segir að „íslenska [sé] mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.“ Í lögunum er jafnframt fjallað um íslenskt táknmál sem fyrsta mál en í 3. gr. segir: „Íslenska táknmálið er fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra. Skulu stjórnvöld hlúa að því og styðja. Hver sem hefur þörf fyrir táknmál skal eiga þess kost að læra og nota íslenskt táknmál, jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst. Sama rétt eiga nánustu aðstandendur.“ Í 13. gr. segir enn fremur að „ríki og sveitarfélög [skuli] tryggja að allir sem þess þurfa eigi kost á þjónustu á íslensku táknmáli. Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á því að varðveita íslenskt táknmál, þróa það og stuðla að notkun þess. Lögð verði áhersla á að fræðiheiti á ólíkum sviðum í íslensku táknmáli nái að þróast og séu notuð. Íslenskt táknmál er jafnrétthátt íslensku sem tjáningarform í samskiptum manna í milli og er óheimilt að mismuna mönnum eftir því hvort málið þeir nota.“

Sú ákvörðun stjórnvalda að íslenska táknmálið skuli ekki vera opinbert mál á Íslandi til jafns við íslensku hefur áhrif á stöðu íslenska táknmálsins. Þrátt fyrir það er í sömu lögum kveðið á um að málin séu jafnrétthá, að ekki megi mismuna mönnum eftir því hvort þeir nota íslensku eða íslenskt táknmál og að allir sem þess þurfa skuli eiga kost á þjónustu á íslensku táknmáli. Það ætti að gera það að verkum að notendur íslenska táknmálsins, eina hefðbundna minnihlutamálsins á Íslandi, standa jafnfætis þeim sem hafa opinbera málið, íslensku, að móðurmáli. Ekkert fjármagn hefur þó hingað til verið eyrnamerkt þessum lögum og hefur þeim ekki að öllu leyti verið framfylgt. Stöðustýring íslenska táknmálsins hefur því ekki skilað þeim árangri sem skyldi þótt lögin hafi tryggt málinu ákveðinn lagalegan sess.

Setningu laga nr. 61/2011 má þó einnig líta á sem bæði viðhorfastýringu og máltökustýringu. Lögin beindu bæði athygli Íslendinga að tilvist íslenska táknmálsins og málhafa þess og heyrnarlausir útlendingar víða um heim samglöddust málhöfum íslenska táknmálsins með árangur í langvinnri baráttu fyrir réttindum heyrnarlausra. Lögin ættu líka að hafa áhrif á máltöku barna sem greinast heyrnarlaus, heyrnarskert eða daufblind. Réttur þeirra til þess að læra íslenskt táknmál jafnskjótt og máltaka hefst var lögfestur og skyldur lagðar á herðar ríkis og sveitarfélaga að þjónusta börnin á íslensku táknmáli. Í lögunum er ekki kveðið nánar á um það hvernig framkvæma eigi þá þjónustu og lögin svara því ekki öllum spurningum máltökustýringar.

Málstefna Stjórnarráðs Íslands (2012) er einnig dæmi um stöðustýringu íslenska táknmálsins en hún var mótuð í kjölfar laga nr. 61/2011. Þar er bæði fjallað um íslensku og íslenskt táknmál og kveðið á um að íslenska sé mál Stjórnarráðsins, sbr. 1. gr. en að „[Stjórnarráðið skuli] gæta þess að að grunnupplýsingar um starfsemi ráðuneytanna séu aðgengilegar á íslensku táknmáli og leitast við að fréttir, fræðsluefni, kynningarefni og annað efni þess ætlað íslenskum borgurum sé aðgengilegt á íslensku táknmáli ef þörf krefur“ sbr. 2. mgr. 2.2. gr. Málnefnd um íslenskt táknmál átti þátt í að móta þessa málstefnu.

Þá er skipan Málnefndar um íslenskt táknmál stöðustýring en nefndin er skipuð til að bæta stöðu íslenska táknmálsins. Málnefndin er málsvari íslenska táknmálsins og starfar í þágu þess.


Formstýring íslenska táknmálsins

Eitt af hlutverkum málnefndarinnar er að vinna að samræmdri táknanotkun og stöðlun íslenska táknmálsins innan ákveðinna marka. Eins og áður hefur komið fram felst stöðustýring m.a. í því að ákveða hvaða málbrigði skal staðla og síðan verður það málbrigði viðfangsefni formstýringarinnar. Ekki hefur verið ákveðið hvort og þá hvaða málbrigði íslenska táknmálsins eigi að rækta og staðla og táknanotkun hefur ekki verið samræmd.

Margir málnotendur leggja ranglega samræmingu og stöðlun að jöfnu við málhreinsun (e. language purification) og telja hana því slæma. Íslenska táknmálið hefur ekki ritmál, ekki frekar en önnur táknmál, en heyrnarlausir Íslendingar nota ritmál íslenskunnar til að tjá sig í riti. Stöðlun íslenska táknmálsins getur því ekki átt sér stað í gegnum ritmálið. Kynslóðabundinn munur er á íslenska táknmálinu og þótt ólíkar kynslóðir málhafa íslenska táknmálsins geti átt í nokkuð áreynslulausum samskiptum eru þær ekki endilega sammála um að eitt tákn fyrir tiltekna merkingu sé á einhvern hátt réttara en annað (sjá Kristbjörgu Helgu Sigurbjörnsdóttur 2011 og Rannveigu Sverrisdóttur 2010:93-94). Þá er rannsóknasaga íslenska táknmálsins stutt og þekking málhafa á eigin máli lítil (sjá yfirlitsgrein Elísu Guðrúnar Brynjólfsdóttur o.fl. 2012).

Táknmálsorðabækur hafa verið gefnar út á pappír hér á landi, eins og víðar, en tilgangur þeirra hefur fremur verið að miðla málinu til heyrandi foreldra en að staðla táknanotkun meðal málnotenda sjálfra (sjá t.d. Táknmál 1976 og Táknmálsorðabók 1980). Með tækninýjungum hafa rafræn orðasöfn orðið algengari og eru flestar táknmálsorðabækur gefnar út á rafrænu formi í dag. Vefsíðan SignWiki.is er þekkingarbrunnur um íslenskt táknmál og þar er m.a. að finna tvímála orðasafn íslensks táknmáls og íslensku. Vefsíðan er hugarfóstur starfsmanna Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH) og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Eitt af aðalmarkmiðunum með gerð síðunnar varð að hún væri opin og aðgengileg öllum og að allt efni á síðunni væri auðfengið og nýtilegt til að miðla íslenska táknmálinu (SignWiki 2013 og SignWiki Ísland 2013).

Ritstjóri SignWiki starfar á SHH en hver sem er getur þó sett inn tákn í orðasafnið í myndbandformi og skráð inn upplýsingar um táknin. Með fyrir fram ákveðinni ritstjórnarstefnu væri hægt að nýta þessa síðu sem formstýringartæki. SignWiki er ætlað til upplýsinga og fræðslu um íslenska táknmálið en ritstjórnarstefnan hefur ekki verið ákveðin enn þá (SignWiki Ísland 2013). Mikilvægt er að vinna hana í samstarfi og sátt við málnotendur og kynna hana vel fyrir þeim ef síðan á að þjóna þeim tilgangi að nýtast sem formstýringartæki. Mikilvægt er að taka tillit til allra kynslóða málhafa. Hugsanlegt væri að hafa fulltrúa hverrar kynslóðar í ritstjórn SignWiki eða með í ritstjórnarstefnuvinnu. Þá er einnig mikilvægt að hafa málfræðing sem þekkir til íslenska táknmálsins með í ráðum.

Til þess að SignWiki virki sem formstýringartæki þarf samfélag heyrnarlausra að taka þátt í umræðum um málið sitt og vera virkt í umbótum á síðunni. Að öðrum kosti er um miðstýringartæki að ræða og hætta á að það missi marks. Það skiptir einnig máli að gera samfélaginu grein fyrir því að hvorki málnefndin né SHH í gegnum SignWiki ætli sér að eigna sér íslenska táknmálið. Rannveig Sverrisdóttir (2010:94-95) telur mikilvægt að eining ríki innan samfélags heyrnarlausra um mál af þessum toga og að allar tilraunir til samræmingar eða stöðlunar málsins séu ávallt unnar í þökk samfélagsins. Þá telur hún einnig mikilvægt að tekið sé tillit til ólíkra málsniða og þróunar málsins.

Málstefna Stjórnarráðs Íslands (2012) felur í sér formstýringu íslenska táknmálsins í samstarfi við Málnefnd um íslenskt táknmál og Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra. Í málstefnunni kemur fram að málfar skuli vera til fyrirmyndar og að gera skuli þær kröfur til stjórnvalda að íslenska táknmálið sem notað sé innan stjórnkerfisins sé vandað, staðlað og skýrt, sbr. 3. mgr. 3.1. gr., og að „Stjórnarráðið [skuli] leita eftir málfarsráðgjöf hjá Málnefnd um íslenskt táknmál sem stuðlar að samræmi og festu í notkun íslensks táknmáls,“ sbr. 3.3. gr. Þá er fjallað um íorðasmíð og varðveislu hugtaka á SignWiki en í 3.7. gr. segir að „í tengslum við þýðingar á íslenskt táknmál [sé] unnið íorðastarf þar sem búin eru til tákn um ýmis hugtök á sviði laga og stjórnsýslu og tæknileg hugtök sem finna má í lögum og samningum ýmiss konar. Skipulega er haldið utan um þessi sértæku tákn og hugtakaskýringar í sérstökum gagnagrunni Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra sem er öllum aðgengilegur á Netinu.“ Í málstefnunni er þar með gert ráð fyrir því að SignWiki sé formstýringartæki sem stjórnvöld geta nýtt sér.

Á SignWiki er einnig að finna kennsluefni og æfingar fyrir börn, foreldra og kennara (SignWiki Ísland 2013). Það má því segja að vefsíðan veiti tæki sem geta haft áhrif á máltökustýringu. Þá er einnig að finna á síðunni upplýsingar um íslenska táknmálið, málsamfélagið og málfræðirannsóknir sem geta haft áhrif á viðhorf til íslenska táknmálsins og virðingu fyrir málinu.


Máltökustýring íslenska táknmálsins

Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) er ekkert fjallað um það hvernig staðið skuli að málörvun heyrnarlausra, heyrnarskertra og daufblindra barna á mesta næmiskeiði máltökunnar. Máltökustýring íslenska táknmálsins hefur að mörgu leyti átt sér stað í gegnum Aðalnámskrá grunnskóla (1999, 2013) og breytingar á kennslustefnum í kennslu heyrnarlausra grunnskólabarna.

Fyrsti skóli fyrir heyrnarlaus börn var stofnaður árið 1867, fram að þeim tíma höfðu heyrnarlaus börn verið send til náms í Kaupmannahöfn. Börnunum var kennt að skrifa og lesa í gegnum svokallað fingramál. Á illræmdum Mílanófundi árið 1880 ákváðu heyrandi kennarar heyrnarlausra barna að banna skyldi táknmál í skólum víða um heim og að börnunum skyldi kennt að tala raddmál sinnar þjóðar. Þessi kennslustefna hefur verið nefnd Raddmálsstefnan (e. Oralism). Raddmálsstefnan náði ekki hingað til lands fyrr en á 5. áratug síðustu aldar en var við lýði fram á 9. áratuginn. Þá tók kennslustefnan Alhliða tjáskipti (e. Total Communication) við en hún fólst í því að beita öllum tiltækum aðferðum, þar með talið rödd og táknum, við kennslu heyrnarlausra barna (sjá t.d. Bryndís Guðmundsdóttir og Guðmundur Egilsson 1989:39-101 og Forsætisráðuneytið 2009:143-148). Árið 2002 voru Vesturhlíðarskóli (skóli fyrir heyrnarlaus börn) og Hlíðaskóli (hverfisskóli fyrir heyrandi börn) sameinaðir í einn skóla undir formerkjum kennslustefnunnar skóli án aðgreiningar. Samkvæmt skólahandbók Hlíðaskóla fyrir skólaárið 2013-2014 er „[g]ert [...] ráð fyrir tvítyngi í skólastarfi Hlíðaskóla þar sem íslenska og táknmál eru jafnrétthá mál. Táknmálskennsla fyrir nemendur og starfsfólk er þróunarverkefni innan skólans. Nemendur í 1-7. bekk fá kennslu í táknmáli einu sinni í viku og auk þess er táknmál valgrein í unglingadeild“ (Hlíðaskóli 2013). Ekki er fjallað sérstaklega um móðurmálskennslu nemenda sem eru heyrnarlausir eða eiga heyrnarlausa foreldra.

Allar breytingar á kennslu heyrnarlausra grunnskólabarna hafa haft áhrif á útbreiðslu íslenska táknmálsins (stöðustýringu þess), form málsins (formstýringu þess), viðhorf til málsins, bæði málhafanna sjálfra og annarra (viðhorfastýringu þess) og fjölda málhafa þess og þekkingu þeirra á málinu (máltökustýringu þess). Íslenska táknmálið var álitið síðra mál en íslenska á tímum Raddmálsstefnunnar, ágætis hjálpartæki við nám í íslensku á tímum Alhliða tjáskipta og jafnrétthátt íslensku nú á dögum.

Í nýrri Aðalnámskrá grunnskóla (2013) er t.a.m. kveðið á um að í námsgreininni tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku skuli námefni miðlað á báðum málum og að nemendur læri að tjá sig í ræðu á íslensku táknmáli og riti á íslensku. Í eldri námskrá er að finna sambærileg viðmið þótt þau hafi verið útfærð frekar í nýjustu námskránni (sjá Aðalnámskrá grunnskóla 1999). Aðalnámskrá er tæki stjórnvalda m.a. til stöðu- og máltökustýringar íslenska táknmálsins. Ef skólakerfið fylgir nýrri námskrá sem skyldi þá ætti málhöfum og málnotendum íslenska táknmálsins að fjölga (máltökustýring) og íslenska táknmálið að breiðast út (stöðustýring). Einnig gætu kennslugögn sem unnin yrðu í sama sjónarmiði haft áhrif á form málsins (formstýring).

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur einnig tekið þátt í máltöku- og viðhorfastýringu en stofnunin stendur fyrir markvissri málörvun heyrnarlausra og heyrnarskertra grunnskólabarna. Verkefnið kallast Gaman saman og miðar að því að útbúa táknmálsumhverfi fyrir börnin þar sem börnin læra táknmál í gegnum leik og starf. Börnin koma með kennurum sínum á SHH og hitta táknmálskennara og aðra táknmálstalandi starfsmenn SHH og á meðan á veru þeirra stendur er aðeins talað íslenskt táknmál. Máltaka er ekki síður félagsleg en málfræðileg og börnin læra samskiptavenjur í menningu heyrnarlausra, að bera virðingu fyrir málinu og öðlast málfyrirmyndir. Starfsmenn stofnunarinnar hafa gert málþroskamat á einhverjum barnanna og mótað einstaklingsnámskrá fyrir heimaskóla þeirra. Þeirri námskrá er fylgt í verkefninu Gaman saman.

Eins og áður hefur komið fram leggur Málnefnd um íslenskt táknmál mesta áherslu á máltökustýringu. Málnefndin stóð fyrir málþingi á degi íslenska táknmálið 11. febrúar 2013 um málumhverfi heyrnarlausra barna þar sem fyrirlesarar miðluðu eigin reynslu og fræðilegum rannsóknum á máltöku og málþroska heyrnarlausra barna. Nefndin hefur staðið í bréfaskriftum við stjórnvöld og stjórnsýsluna til að kanna hvernig ýmsar stofnanir, s.s. leik- og grunnskólar, hafa brugðist við lögum nr. 61/2011.

Í skýrslu nefndarinnar frá 7. júní 2013 segist málnefndin hafa „rökstuddan grun um að víða sé pottur brotinn í stefnumótun um málumhverfi og máluppeldi bæði heyrnarskerta/heyrnarlausra barna og barna heyrnarlausra foreldra hér á landi“ (Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013:12). Sökum þessa hefur málnefndin safnað gögnum um málumhverfi og máluppeldi þessara barna og, eins og fram kemur í skýrslunni, mun málnefndin „beita sér fyrir úttekt á málumhverfi þessara barna í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimildum og gera tillögur um úrbætur“ (Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013:12).

Í skýrslu Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2014 leggur málnefndin enn áherslu á máltökustýringu og viðhorfastýringu og leggur til breytingar á stöðustýringu stjórnvalda. Í ályktun sinni hvetur málnefndin „skólayfirvöld til þess að taka sig á varðandi afstöðu sína til íslensks táknmáls“ (Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2014:1). Þar segir enn fremur: „Gera þarf stórátak til þess að gefa börnum með skerta heyrn jafnan aðgang að íslensku táknmáli og íslensku eins og lög mæla fyrir um. Með þeirri afstöðu að íslenskt táknmál sé einhvers konar hjálpartæki eða þáttur í velferðarþjónustu er brotið á þeim málnotendum sem ættu að eiga óheftan aðgang að íslensku táknmáli. Málnefnd um íslenskt táknmál leggur áherslu á að þjónustu við málsamfélag íslenska táknmálsins þarf að styrkja og efla verulega. Sérstaklega þarf að standa tryggan vörð um að börn með skerta heyrn geti öðlast virkt tvítyngi íslensks táknmáls og íslensku“ (bls. 1).

Þótt víða sé hægt að finna umræðu um íslenskt táknmál og máluppeldi heyrnarlausra barna og barna heyrnarlausra foreldra í orði, s.s. í námskrám og skólahandbókum, er ljóst af ályktunum málnefndarinnar að um er að ræða hugsjónir í orði en ekki á borði.


Viðhorfastýring íslenska táknmálsins

Viðhorf til tungumála geta skipt sköpum fyrir líftíma tungumálsins. Mál sem litið er hornauga er ekki líklegt til að vaxa og dafna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Neikvætt viðhorf málhafa meirihlutamáls til minnihlutamáls getur haft áhrif á viðhorf málhafa minnihlutamálsins til eigin máls (sjá t.d. Burns o.fl. 2001 og Valgerði Stefánsdóttur 2005).

Á tímum Raddmálsstefnunnar hér á landi var viðhorf til íslenska táknmálsins neikvætt. Kennarar heyrnarlausra barna á þessum tíma litu á íslenska táknmálið sem óþarfa og að það hefði hamlandi áhrif á íslenskunám þeirra. Þetta viðhorf breyttist hægt og rólega með tilkomu málvísindarannsókna á erlendum táknmálum, sem sýndu fram á jafngildi táknmála og raddmála og jákvæð áhrif táknmála á málþroska heyrnarlausra barna (sjá t.d. Stokoe 1960, Battison 1978, Marschark og Hauser 2012:39-44).

Rannsóknir á íslenska táknmálinu hófust á tíunda áratugnum og voru þær í fyrstu aðeins unnar í hagnýtum tilgangi vegna kennslu íslenska táknmálsins. Fræðilegar rannsóknirnar á íslenska táknmálinu og málsamfélagi þess hafa aukist talsvert á undanförnum árum og hafa málvísindamenn á sviði táknmálsfræði unnið markvisst að því að auka sýnileika rannsóknaniðurstaðna bæði hérlendis og erlendis (sjá t.d. Elísu Guðrúnu Brynjólfsdóttur o.fl. 2012 og Rannveigu Sverrisdóttur og Kristínu Lenu Þorvaldsdóttur 2014). Ef fræðilegar greinar og umræður um íslenska táknmálið eru skoðaðar í ljósi viðhorfastýringar má líta svo á að um sé að ræða „[tilraunir] til þess að breyta viðhorfi einstaklinga og hópa [...] til tiltekins tungumáls“ (Reagan 2010:51). Þótt viðhorf til íslenska táknmálsins sé almennt jákvætt í dag þá þarf að gæta þess breytingar á stjórnkerfinu, s.s. skólakerfinu, geta haft áhrif á viðhorf til íslenska tákmálsins.

Málnefnd um íslenskt táknmál hefur einnig tekið stórt skref í átt að bættu viðhorfi samfélagsins til íslenska táknmálsins. Málnefndin stóð fyrir því, í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneytið, að 11. febrúar yrði dagur íslenska táknmálsins, líkt og 16. nóvember er dagur íslenskrar tungu. Degi íslenska táknmálsins hefur verið fagnað á ýmsan hátt en málnefndin hefur staðið fyrir vel sóttum málþingum í tilefni dagsins og hefur dagurinn, íslenska táknmálið og málhafar þess orðið að umfjöllunarefni fjölmiðla (sjá t.d. viðtöl við Arnar Ægisson og Heiðdísi Dögg Eiríksdóttur 2013 og Valgerði Stefánsdóttur 2014a og 2014b og Morgunblaðið 2014). Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði og stjórnarmaður í Málnefnd um íslenskt táknmál, hefur einnig ritað greinar um íslenskt táknmál um og í tilefni dags íslenska táknmálsins (sjá Rannveig Sverrisdóttir 2014a og 2014b)

Í skýrslum málnefndarinnar um stöðu íslenska táknmálsins 7. júní 2013 og 2014 hefur málnefndin vakið athygli á mikilvægi viðhorfa til tungumálsins. Í skýrslunni frá 2013 kemur fram að málnefndin telji „mikilvægast [...] að huga að börnunum og tryggja að þau fái gott máluppeldi, að málið þeirra sé viðurkennt og því sé sýnd virðing hvar sem er í samfélaginu. Aðeins þannig öðlast börnin sjálf jákvæð viðhorf til síns fyrsta máls, íslensks táknmáls, og til döff menningarheims“ (Skýrsla málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013:16). Í skýrslunni sem birt var í júní 2014 beinir málnefndin sjónum sínum að áhrifum stjórnvalda á viðhorf, máltöku, form og stöðu íslenska táknmálsins, bæði í ljósi sögunnar og með tilliti til aðgerða og aðgerðaleysis undanfarin ár (Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2014).


Samantekt

Staða íslensks táknmáls hefur að mörgu leyti breyst til hins betra undanfarin ár og á allra síðustu árum hefur Málnefnd um íslenskt táknmál hefur átt stóran þátt í öllum tegundum málstýringar og baráttu til hagsbóta fyrir íslenska táknmálið. Lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls kveða á um rétt barna sem hafa þörf fyrir táknmál til að læra það og nota „jafnskjótt sem máltaka hefst eða frá þeim tíma sem heyrnarleysi, heyrnarskerðing eða daufblinda hefur greinst,“ sbr. 2. mgr. 3. gr. Lögin kveða ekki á um það hvernig eigi að kenna íslenska táknmálið, hvernig börnin eigi að bera virðingu fyrir því og hvenær og hvernig þau eiga að nota það. Málnefnd um íslenskt táknmál leggur mesta áherslu á máltökustýringu í störfum sínum enda sýna skýrslur málnefndarinnar um stöðu íslenska táknmálsins tveimur og þremur árum eftir að lög nr. 61/2011 voru sett að málumhverfi þessara barna er verulega ábótavant (Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013, 2014). Miklu máli skiptir að Málnefnd um íslenskt táknmál, stjórnvöld og málsamfélag íslenska táknmálsins vinni saman að því að bæta stöðu íslenska táknmálsins í samræmi við lög nr. 61/2011 og framfylgi þeim bæði í orði og á borði. Þannig getur máltökustýring, viðhorfastýring og formstýring íslenska táknmálsins orðið málinu og málhöfum þess til framdráttar.


[1] Ég vil þakka Ara Páli Kristinssyni, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, og Rannveigu Sverrisdóttur, lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands, fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.

[2] "Language policy may refer to all the language practices, beliefs and management decisions of a community or polity" (Spolsky 2004:9).

[3] Máltökustýring hefur einnig verið nefnd málanámsstýring (sjá Ari Páll Kristinsson 2007:107, nmgr. 11).

[4] "Attitude planning refers to efforts to change or alter the attitudes of individuals or groups either toward a particular language (their own or that of someone else), or toward monolingualism, bilingualism, or multilingualism" (Reagan 2010:51).


Heimildaskrá

Aðalnámskrá grunnskóla. 1999. Íslenska. Menntamálaráðuneytið, Reykjavík.

Aðalnámskrá grunnskóla. 2013. Almennur hluti 2011 og greinasvið 2013. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík.

Aðalnámskrá leikskóla. 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík.

Ari Páll Kristinsson. 2006. Um málstefnu. Hrafnaþing 3:47-63.

Ari Páll Kristinsson. 2007. Málræktarfræði. Íslenskt mál og almenn málfræði 29:99-124.

Arnar Ægisson og Heiðdís Dögg Eiríksdóttir. 2013. Dagur íslenska táknmálsins. RÚV, Kastljós. 11. febrúar. 2013.

Ball, Jessica. 2010. Enhancing learning of children from diverse language backgrounds: Mother tongue-based bilingual or multilingual education in the early years. UNESCO, París.

Battison, Robbin. 1978. Lexical Borrowing in American Sign Language. Linstok Press, Silver Spring.

Bryndís Guðmundsdóttir og Guðmundur Egilsson. 1989. Heyrnarlausir á Íslandi. Sögulegt yfirlit. Félag Heyrnarlausra í samvinnu við Fjölsýn forlag, Reykjavík.

Burns, Sarah, Patrick Matthews og Evelyn Nolan-Conroy. 2001. Language Attitudes. Í Ceil Lucas (ritstj.). The Sociolinguistics of Sign Languages, 181-216. Cambridge University Press, Cambridge.

Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir. 2012. Málfræði íslenska táknmálsins. Íslenskt mál og almenn málfræði 34:9-52.

Forsætisráðuneytið. 2009. Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007. Áfangaskýrsla nr. 1. Könnun á starfsemi Heyrnleysingjaskólans 1947– 1992, vistheimilisins Kumbaravogs 1965–1984 og skólaheimilsins Bjargs 1965–1967. Sótt 8. júlí 2014 af http://www.forsaetisraduneyti.is/media/Skyrslur/2009-09-afangaskyrsla1-konnun-barnaheimila.pdf.

Haarmann, Harald. 1990. Language planning in the light of a general theory of language. A methodological framework. International Journal of the Sociology of Language 86:103-126

Hlíðaskóli. 2013. Hlíðaskóli. Skólahandbók 2013-2014. Sótt þann 8. júlí 2014 af http://hlidaskoli.is/images/stories/pdf/skolapappirar2013_2014/skolahandbok1314.

Kaplan, Robert B. og Richard B. Baldauf Jr. 1997. Language Planning From Practice to Theory. Multilingual Matters Ltd., Clevedon.

Kristbjörg Helga Sigurbjörnsdóttir. 2011. Um kynslóðamun í íslensku táknmáli. Rannsókn á kynslóðabundnum málfarsmun í íslensku táknmáli. BA ritgerð í táknmálsfræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.

Lög nr. 61/2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, 7. júní.

Marschark, Marc og Peter C. Hauser. 2012. How Deaf Children Learn. What Parents and Teachers Need to Know. Oxford University Press, Oxford.

Málstefna Stjórnarráðs Íslands. 2012. Stjórnarráð Íslands, Reykjavík.

Morgunblaðið. 2014. Dagur íslenska táknmálsins í dag. 11. febrúar. Sótt 8. júlí 2014 af http://www.mbl.is/greinasafn/grein/1497912/?t=999216611&_t=1393233643.41

Ouane, Adama og Christine Glanz. 2010. Why and how Africa should invest in African languages and multilingual education. An evidence- and practice-based policy advocacy brief. UNESCO Institute for Lifelong Learning, Hamburg.

Rannveig Sverrisdóttir. 2010. Islandsk tegnsprogs status. Í Guðrún Kvaran (ritstj.). Frá kálfsskinni til tölvu, 89-97. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík.

Rannveig Sverrisdóttir. 2014a. Dagur íslenska táknmálsins. Hugrás - vefrit Hugvísindasviðs. Apríl. Sótt 8. júlí 2014 af http://www.hugras.is/2014/04/dagur-islenska-taknmalsins/.

Rannveig Sverrisdóttir. 2014b. Dagur íslenska táknmálsins. Vísir. 11. febrúar. Sótt 8. júlí 2014 af http://www.visir.is/dagur-islenska- taknmalsins/article/2014702119963.

Rannveig Sverrisdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2014. Why is the SKY BLUE? On colour signs in Icelandic Sign Language. Í Ulrike Zeshan og Keiko Sagara (ritstj.). Semantic fields in sign languages, [væntanlegt]. Mouton de Guyter, Berlín og Ishara Press, Nijmegen.

Reagan, Timothy G. 2010. Language Policy and Planning for Sign Languages. Gallaudet Univeristy Press, Washington D.C.

Sallabank, Julia. 2012. Diversity and language policy for endangered languages. Í Bernard Spolsky (ritstj.). The Cambridge Handbook of Language Policy, 100-123. Cambridge University Press, Cambridge.

SignWiki. 2013. Web and Mobile Platform for Sign Languages and Deaf Education. Sótt þann 8. júlí 2014 af http://signwiki.org/.

SignWiki Ísland. 2013. SignWiki:Um. Sótt þann 8. júlí 2014 af http://signwiki.is/index.php/SignWiki:Um.

Singleton, Jenny L. og Elissa L. Newport. 2004. When learners surpass their models: The acquisition of American Sign Language from inconsistent input. Cognitive Psychology 49:370–407.

Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2014. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Reykjavík.

Spolsky, Bernard. 2004. Language Policy. Cambrigde University Press, Cambridge.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. [Án árs]. Málnefnd um íslenskt táknmál. Sótt þann 8. júlí 2014 af http://www.arnastofnun.is/page/malnefnd_um_islenskt_taknmal.

Stokoe, William C. 1960. Sign Language Structure: An Outline of the Visual Communication Systems of the American Deaf. Studies in Linguistics Occasional Papers 8. University of Buffalo Press, Buffalo. [Endurútgefið 2005 í Journal of Deaf Studies and Deaf Education 10,1:3–37.

Táknmál. 1976. Félag heyrnarlausra, Reykjavík.

Táknmálsorðabók. 1987. Félag heyrnarlausra, Reykjavík.

Valgerður Stefánsdóttir. 2005. Málsamfélag heyrnarlausra. Um samskipti á milli táknmálstalandi og íslenskutalandi fólks. M.A. ritgerð í uppeldis- og menntunarfræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.

Valgerður Stefánsdóttir. 2014a. Táknmál – tungumál í þrívídd. RÚV, Sjónmál á Rás 1. 10. febrúar.

Valgerður Stefánsdóttir. 2014b. Táknmál auðgar lífið. RÚV, Síðdegisútvarpið á Rás 2. 11. febrúar.

Wilcox, Sherman, Verena Krausneker og David Armstrong. 2012. Language policies and the deaf community. Í Bernard Spolsky (ritstj.). The Cambridge Handbook of Language Policy, 374-395. Cambridge University Press, Cambridge.