Persónufornöfn í ÍTM

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

Höfundur: Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands. 2015.

Óheimilt er að afrita greinina, að hluta til eða í heild, án þess að vitna til þess hvaðan textinn kemur upphaflega. Í heimildaskrá verka skal vitna á eftirfarandi hátt:

Rannveig Sverrisdóttir. 2015. Persónufornöfn í ÍTM. SignWiki. Sótt [dagur. mánuður ár] af http://is.signwiki.org/index.php/Persónufornöfn_Í_ÍTM


Inngangur

Öll tungumál, bæði táknmál og raddmál, byggja á safni orða sem notuð eru í málinu. Orðasafni hvers máls er hægt að skipta í tvær fylkingar, það sem kallað er kerfisorð (e. functional words) annars vegar og inntaksorð (e. lexical/content words) hins vegar. Kerfisorðin hafa það megin hlutverk að þjóna málkerfinu. Þau hafa mjög almenna eða jafnvel enga merkingu því hlutverk þeirra er fyrst og fremst málfræðilegt og eru orðflokkar kerfisorða yfirleitt litlir og lokaðir. Inntaksorðin hins vegar bera í sér kjarna merkingarinnar og þeir orðflokkar eru yfirleitt opnir (Haspelmath 2001:16539). Orðasafninu er líka stundum skipt enn meira niður og þá í orðflokka (e. word classes/parts of speech). Sem dæmi um orðflokka má nefna sagnorð, nafnorð, forsetningar og samtengingar. Orðflokkarnir eru mismunandi og gegna ólíkum hlutverkum í málinu (um orðflokka má t.d. sjá nánar hjá Haspelmath 2001). Sumir þeirra, þeir sem heyra til inntaksorða, eru sagðir opnir sem þýðir að stöðugt er hægt að bæta við nýjum orðum í þann flokk á meðan aðrir (kerfisorðin) eru lokaðir og ekki hægt að bæta við þá nýjum orðum. Nafnorð eru dæmi um opinn orðflokk en með tilkomu nýrra hluta og hugmynda er stöðugt þörf á nýjum nafnorðum og engin höft á því hvað hægt er að búa til mörg ný nafnorð í tungumálum (til dæmis er snjallsími nýyrði bæði í ÍTM og íslensku og nafnorð í báðum málum).


Fornöfn (í tákn- og raddmálum)

Fornöfn eru flókinn flokkur og vegna þess hve ólíkum hlutverkum þau gegna eru þau ekki alltaf talin sérstakur orðflokkur heldur margir undirflokkar annarra orðflokka (Haspelmath 2001:16539). Í flestum tungumálum eru þau kerfisorð og því lokaður orðflokkur. Hefðbundnar skilgreiningar á fornöfnum segja m.a. að fornöfn „standi fyrir“ nafnorð (Bhat 2004:1) og að einkenni þeirra sé það að merking þeirra sé ákvörðuð út frá öðru orði í sömu setningu (O‘Grady o.fl. 1997:292). Bhat (2004:1) segir einnig að flestum málvísindamönnum þyki þessar skilgreiningar á fornöfnum ófullnægjandi og að þau orð sem venjulega séu talin heyra til fornafna séu það ólík að þau geti ekki myndað einn flokk. Hins vegar hafi engin betri skýring fundist og því séu málvísindamenn tilneyddir til að lúta áður nefndum skilgreiningum.

Í íslensku eru fornöfn skilgreind sem undirflokkur fallorða og flokkar þeirra sagðir vera persónufornöfn, afturbeygð fornöfn, spurnarfornöfn, eignarfornöfn, ábendingarfornöfn, óákveðin fornöfn og tilvísunarfornöfn (Höskuldur Þráinsson 2005:62-63). Höskuldur bendir þó á að þótt fornöfnin eigi það sameiginlegt að vera fallorð séu flokkarnir býsna ólíkir innbyrðis (2005:62). Í þessari grein verður farið að fordæmi Cormier (2012) sem skrifar um fornöfn í nýlegri handbók um táknmál (Pfau o.fl. 2012) og byggir þar á greiningu Bhat (2004). Bhat skiptir fornöfnum (e.pronouns) í tvo undirflokka, annars vegar það sem hann kallar persónufornöfn (e. personal pronouns), hins vegar það sem hann kallar á ensku proform en verður hér kallað „ekki-persónufornöfn“ sem andstæða við persónufornöfnin. Það skal tekið fram að Bhat er hér ekki að tala um tilvísandi handform í svokölluðum próformasögnum í táknmálum heldur skilgreinir hann öll önnur fornöfn en persónufornöfn sem proform eða „ekki-persónufornöfn“ (Bhat 2004:5). Ekki verður farið nánar út í skilgreiningar á greiningu fornafna í þessari grein (sjá Bhat 2004 eða Cormier 2012 fyrir frekari umræðu þar að lútandi) þar sem hér verður einungis fjallað um persónufornöfn.


Persónufornöfn

Persónufornöfn standa fyrir eða vísa til nafnorða eða nafnliða (fornafn = fyrir nafn(orð)). Þannig getur persónufornafnið hann vísað til margra hluta eða aðila en túlkun þess verður að ráða út frá því sem sagt hefur verið áður. Í dæmi (1) vísar persónufornafnið til nafnorðsins í aðalsetningunni sem á undan fer, þ.e. hann = strákurinn.

(1) Strákurinn er þreyttur, hann svaf illa í nótt.

Í dæmi (1) er persónufornafnið, hann, endurvísun (e. anaphoric reference), þ.e. vísar til þess sem sagt hefur verið áður, strákurinn. Persónufornöfn geta líka verið bendivísanir (e. deictic reference) og vísa þá yfirleitt til þess sem er á staðnum. Þó er líka hægt að nota bendivísanir um vísimið sem er ekki á staðnum ef báðir/allir aðilar í samtalinu vita við hvern er átt. Í dæmi (2) er persónufornafnið bendivísun, annað hvort er sá sem vísað er til á staðnum eða það er ljóst af aðstæðum við hvern er átt, t.d. ef einn dreng vantar í bekkinn, sætið hans er því autt og kennarinn segir (2) við bekkinn án þess að nefna áður í hvern er vísað.

(2) Hann er veikur í dag.

Persónufornöfnin í dæmum (1) og (2) vísa því til einhvers sem sagt hefur verið frá áður eða til einhvers sem er til staðar í samtalsaðstæðunum. Eða, eins og segir hjá Höskuldi Þráinssyni þá eiga persónufornöfn „...oftast við eitthvað sem nefnt hefur verið áður eða viðstaddir geta vitað hver eða hvað er vegna samhengis eða aðstæðna“ (1995:214). Í íslensku eru til myndir fyrir þrjár mismunandi persónur; fyrstu, aðra og þriðju persónu (Höskuldur Þráinsson 2005:64). Fyrsta persóna er sá sem talar (ég), önnur persóna er viðmælandinn (þú) en þriðja persónan sá eða sú sem talað er um (hann/hún/það). Persónufornöfn í íslensku beygjast í föllum og tölum og í þriðju persónu beygjast þau eftir kyni. Dæmi um þriðju persónufornafn í nefnifalli, eintölu, karlkyni er hann sem í sömu tölu og sama kyni en í þágufalli væri honum. Dæmi um þriðju persónufornafn í nefnifalli, eintölu, hvorugkyni væri það. Íslenska hefur tvær tölur, eintölu og fleirtölu og verður t.d. fyrstu persónufornafnið égvið í fleirtölu, þú verður þið og svo framvegis (sjá nánar í Höskuldur Þráinsson 2005).


Persónufornöfn í táknmálum

Táknmál nota táknrýmið (e. signing space) til að vísa til vísimiða (e. referent), þ.e. persóna eða hluta, hvort sem þau eru á staðnum eða ekki. Í langflestum táknmálum sem rannsökuð hafa verið taka persónufornöfn á sig mynd bendingar sem vísar á ákveðinn stað í rýminu (Cormier 2012:228-229). Bendingin sjálf er oftast gerð með hendi (e. manually), þá vísi-handformi (sbr. táknið BENDING) eða með látbrigðum (e. non-manually), þ.e. með augnatilliti, höfuðhreyfingu eða afstöðu líkama. Ef bending er með augnatilliti er horft á þann eða í hólf þess sem vísað er til. Ef bending er með höfuðhreyfingu er höfðinu snúið að þeim sem vísað er til. Líkama er oft snúið að þeim sem vísað er til en þá fylgja bæði höfuðhreyfing og augnatillit líkamanum. Oft fara látbrigði og bending saman, þ.e. augnatillit fylgir bendingu með fingri (Pfau og Quer 2010:394). Þetta má t.d. sjá í dæminu ertu strand, hann kann þetta (undir HANN) þar sem táknari horfir í sama hólf og bent er. Nokkur dæmi um persónufornöfn má sjá hér: ÉG, ÞÚ, ÞIÐ-ÖLL.

Ef vísimið er á staðnum beinist bendingin að því sjálfu, t.d. þegar um er að ræða persónufornöfn fyrstu persónu beinist bendingin að líkama táknara (venjulega vísar bendingin að bringu táknara, undantekning frá því er þó t.d. í japönsku táknmáli, NS, þar sem fornöfn í fyrstu persónu beinast að nefi táknara) (Cormier 2012:229). Ef vísimið er fjarverandi beinist bendingin að fyrirfram ákveðnum stað í rýminu, svokölluðu hólfi (e. locus), sem hefur verið sett upp áður, í þeim tilgangi að hægt sé að vísa til viðkomandi aftur í segðinni (Lillo-Martin og Klima 1990:192). Þessar staðsetningar geta verið breytilegar en lúta þó ákveðnum lögmálum. Vegna þessa þá geta persónufornöfn með sama hlutverk haft ólíkan myndunarstað, allt eftir því hvar vísimiðum hefur verið gefið hólf. Staðsetning persónufornafns í rými er því háð því hvar vísimið er staðsett eða hvar því er gefið hólf en persónufornafnið er engu að síður hið sama.

Eins og lýst var hér að ofan eru persónufornöfn í táknmálum bendingar en rétt er að taka fram að bendingar gegna ýmsum hlutverkum í málfræði táknmála og því eru bendingar ekki alltaf persónufornöfn. Liddell (2003) telur reyndar að bendingar í táknmálum séu ekki málfræðilegar en ekki verður farið út í það hér.

Persónufornöfn í táknmálum fela yfirleitt í sér persónu og tölu en ekki kyn eða fall. Í persónufornöfnum má líka gefa til kynna ákveðna virðingu, hugsanlega svipað þérun og einnig er sýnt hvort viðmælandi er hluti af þeim sem vísað er til eða ekki (svokallað clusivity þar sem inclusive þýðir að viðmælandi sé hluti af þeim sem vísar er til en exclusive að viðmælandi sé það ekki). Nánar verður fjallað um myndir persónufornafna í táknmálum hér á eftir. Eins og Cormier bendir á (2012:233) hegða eignarfornöfn sér eins og persónufornöfn í bæði bandaríska (ASL) og breska (BSL) táknmálinu og líklega fleiri táknmálum. Handformið í þeim er þó ólíkt persónufornöfnum, oftast B-handform þó möguleikarnir séu fleiri.

Þegar talað er um persónufornöfn í táknmálum er mikilvægt að átta sig á þeim mun sem er á persónufornöfnum í táknmálum annars vegar og raddmálum hins vegar. Þannig er kyn ekki málfræðileg formdeild í táknmálum og það sama gildir um fall. Persónufornöfn í táknmálum beygjast því ekki í kynjum eða föllum eins og þau gera t.d. í ensku (he/she/it) og íslensku (ég/mig/mér, hann/hún/það) og eru persónufornöfnin því eins þótt kyn vísimiða sé ólíkt. Þegar við hins vegar þýðum segð úr íslensku táknmáli yfir á íslensku bætum við kyni og falli við íslensku þýðinguna til samræmis við annað í segðinni. Hér er því um að ræða þætti sem koma fram í þýðingu en eru ekki eiginleikar táknmálsins sjálfs. Það er enginn munur á persónufornafninu sem þýtt er hann annars vegar og hún hins vegar, munurinn kemur aðeins fram í íslensku þýðingunni. Þetta þarf að hafa í huga þegar rætt er um persónufornöfn í táknmálum.

Persóna

Persónufornöfn vísa til persóna í fyrstu, annarri eða þriðju persónu en mikilvægt er að taka fram að ekki er gerður greinarmunur á annarri og þriðju persónu í öllum táknmálum. Eins og áður sagði er það almennt svo að fyrsta persóna vísar til viðmælanda sjálfs (ég/við), önnur persóna til þess sem talað er við (þú/þið) og þriðja persóna til þess sem ekki er partur af samtalinu (hann/hún). Dæmi 3) sýnir þrjár ólíkar persónur í persónufornöfnum á íslensku, sem vísa til fyrstu (ég), annarrar (þér) og þriðju (honum) persónu:

(3) Ég segi þér frá honum.

Í þeim táknmálum sem rannsökuð hafa verið er ýmist talið að persónur séu tvær eða þrjár. Friedman (1975:947) taldi persónur í fornöfnum í ASL vera þrjár eins og lýst var fyrir íslensku hér að ofan en Lillo-Martin og Klima (1990:198) staðhæfðu að ASL hafi enga persónu aðgreiningu. Meier (1990) hefur hins vegar haldið því fram að ASL hafi tvær persónur, fyrsta persóna og ekki-fyrsta persóna og hafa fleiri tekið undir þá skoðun, m.a. Engberg-Pedersen (1995) fyrir danska táknmálið. Þeir sem telja persónurnar vera þrjár hafa haldið því fram að augnatillit (þ.e. hvert horft er á meðan bending er framkvæmd) greini á milli 2. og 3. persónu en þessu hafna Meier (1990) og Engberg-Pedersen (1995) og segja að augnatillit aðgreini ekki 2. og 3. persónu. Auk þess séu hólf sem þessi persónufornöfn vísi í þau sömu og því ekki eðlilegt að gera greinarmun þarna á milli.

Tala

Tala er, eins og persóna, beygingarformdeild sem birtist í persónufornöfnum. Persónufornöfn í þeim táknmálum sem rannsökuð hafa verið til þessa eru talin hafa eintölu, tvítölu og fleirtölu (Cormier 2012:231). Í táknmálum er hægt að gefa til kynna tvenns konar fleirtölu, auk tvítölu. Annars vegar er vísað til heildarinnar (e. collective) og er þá hreyfingin í tákninu bogadregin, (eins og dæminu ÞIÐCOLL ‚þið – átt við alla sem vísað er til‘, undir FLEIRTALA), hins vegar er vísað til hvers og eins (e. distributive) með endurtekinni bendingu í boga (eins og í dæminu ÞIÐDISTR ‚þið – átt við suma af tilteknum hóp‘, undir FLEIRTALA) (Steinbach 2012:122).

Í tvítölu taka bæði handform og hreyfing breytingu frá eintöluforminu. Samkvæmt Cormier (2007:75 og 2012:232) er um að ræða tvítölu þegar handformið er K (eða eitthvað afbrigði handforms þar sem vísifingur og langatöng eru bein) og hreyfingin er fram og til baka á milli þeirra persóna sem um ræðir, sjá táknið fyrir ÞIÐ-TVÖ í ÍTM. Í þýska táknmálinu, DGS, er tvítalan mynduð á sama hátt (Steinbach 2012:121) og Cormier lýsir. McBurney (2002) ræðir um tvítölu í ASL og segir að handformið í tvítölunni sé ólíkt handforminu fyrir töluorðið ‚tveir‘. Töluorðið ‚tveir‘ er myndað með vísifingri og löngutöng beinum, V-handformi, en í persónufornafninu er handformið K (þá er þumalfingur beinn og staðsettur á milli löngutangar og vísifingurs). Hreyfingin í tvítölu persónufornafninu er fram og til baka (2002:336).

Auk tvítölu er í mörgum táknmálum hægt að tjá persónufornafn fyrir þrjár, fjórar og jafnvel allt að níu persónur (Steinbach 2012:122 og McBurney 2002:336). Hér er um svokallaða töluinnlimun (e. numeral incorporation) að ræða þar sem handform persónufornafnsins tekur á sig mynd töluorðs, þ.e. töluorðið segir til um það til hve margra er vísað með persónufornafninu. Dæmi um þetta í ÍTM má sjá hér ÞÆR-ÞRJÁR þar sem handformið er 3-handform eins og í töluorðinu ‚þrír‘ og hreyfing táknsins er í hring. Samkvæmt Steinbach er hreyfing táknsins í hring þegar um töluinnlimun er að ræða (2012:122) en hreyfing í tvítölu er fram og til baka eins og áður sagði.

Með- eða frátalinn

Í táknmálum geta persónufornöfn í fyrstu persónu fleirtölu og tvítölu verið það sem kallað er „exclusive“ eða „inclusive“ (McBurney 2002:336, Cormier 2007 og 2012:233). Þá er átt við að viðmælandi (sá sem táknari er að tala við) sé ýmist hluti af persónufornafninu eða ekki. Dæmi um þetta má sjá í ÍTM eftirfarandi dæmum (bæði eru undir VIÐ-ÖLL): VIÐ-ÖLLINCL ‚við öll, allir meðtaldir‘ og VIÐ-ÖLLEXCL ‚við öll, að undanskildum viðmælanda‘. Bæði fornöfnin eru í fyrstu persónu fleirtölu en munurinn liggur í því hvort viðmælandi er með (inclusive) eða ekki (exclusive). Staðsetning þessara persónufornafna í rýminu er ólík. Þegar viðmælandi er meðtalinn er myndunarstaður við bringu táknara en ef persónufornafnið er að viðmælanda frátöldum er myndunarstaður við öxl táknara. Í báðum tilvikum fylgir sams konar hreyfing sem á sér stað á viðeigandi staðsetningu í rýminu, í fleirtölu er hreyfingin bogadregin/hringlaga en í tvítölu er hún fram og til baka.

Virðing eða þérun

Vísanir í hólf benda yfirleitt lárétt út í rýmið nema ef vísimið er staðsett hærra eða lægra en táknari, t.d. ef verið er að vísa í barn eða einhvern sem situr, eða einhvern sem er hávaxinn eða staðsettur hærra en táknari. Þá vísar bending niður (á barnið eða þann sem situr) eða upp (á þann hávaxna eða þann sem er uppi). Með því að staðsetja vísimið ofar í rýminu er einnig hægt að gefa til kynna ákveðna virðingu (hugsanlega þérun) og er þá bent lóðrétt en ekki lárétt. Í dæminu ÞÚ er bending beint út í rýmið og því hlutlaus en í dæminu ÞÚ (uppi) er bendingin upp á við og bendir því til ákveðinnar virðingar, t.d. vegna stöðu viðkomandi (t.d. þegar einhver ræðir við yfirmann sinn eða annan sem hann ber virðingu fyrir).

Ég eða „ég“

Þó persónufornöfn í táknmálum séu yfirleitt ótvíræð þar sem þau benda á vísimið sitt (Lillo-Martin og Klima 1990:194-195) þá geta þau verið tvíræð þegar um hlutverkaskipti er að ræða. Í endurtekinni ræðu getur táknarinn notað fornafn fyrstu persónu um annan en sjálfan sig (e. logophoric pronouns), táknar t.d. ‚ég‘ þegar hann á við ‚Jón‘ og vísar þá til orða, hugsana eða tilfinninga Jóns (sjá Lillo-Martin og Klima 1990: 195). Form fornafnsins tekur engum breytingum, er áfram bending á bringu táknara. Sjá nánari dæmi um þetta í kafla um persónufornöfn í ÍTM hér að neðan.


Um persónufornöfn í ÍTM

Aðeins ein rannsókn (Kristín Lena Þorvaldsdóttir 2007) hefur fjallað um fornöfn og tilvísanir í íslensku táknmáli, en svo virðist sem ÍTM svipi mjög til erlendra táknmála hvað þetta varðar. Hér verður fjallað nánar um eiginleika persónufornafna í ÍTM og þá sérstaklega þar sem þau eru ólík því sem hefur verið skrifað um hér að ofan.

Persóna og tala

Kristín Lena Þorvaldsdóttir (2007) komst að þeirri niðurstöðu að persónur í ÍTM séu tvær, fyrsta persóna og ekki-fyrsta persóna. Kristín Lena segir að enginn munur sé á 2. og 3. persónu, þá hvorki hvað varðar augnatillit (hvert horft er) né bendingarnar sjálfar (2007:35). Kristín Lena kemst því að sömu niðurstöðu og Meier (1990) og Engberg-Pedersen (1995). Þó ítarlegri rannsókna sé þörf til að staðfesta þetta er ekki ólíklegt að ÍTM svipi til danska táknmálsins í þessu tilliti. Hér má sjá dæmi um persónufornafn í 1. persónu í ÍTM: ÉG og persónufornöfn í ekki-fyrstu persónu: ÞÚ/HANN

Eins og áður sagði eru þau táknmál sem rannsökuð hafa verið til þessa talin hafa þrjár tölur, eintölu, tvítölu og fleirtölu og það sama á við um ÍTM, sjá hér dæmi um 1. persónufornafn í eintölu (4), tvítölu (5) og fleirtölu (6):

(4) ÉG = 1. pers. et.
(5) VIÐ TVÖ = 1. pers. tvít.
(6) VIÐ (ÖLL) = 1. pers. ft.

Persónufornöfn í ekki-fyrstu persónu hafa líka þrjár tölur eins og dæmi (7)-(9) sýna:

(7) ÞÚ/HANN/HÚN/ÞAÐ = ekki-fyrsta persóna et.
(8) ÞIÐ TVÖ/ÞEIR TVEIR/ÞÆR TVÆR/ÞAU TVÖ = ekki fyrsta persóna tvít.
(9) ÞIÐ (ÖLL)/ÞEIR (ALLIR)/ÞÆR (ALLAR)/ÞAU (ÖLL) = ekki-fyrsta persóna ft.

Eins og dæmin sýna felst munurinn á ólíkri tölu annars vegar í breytingu á handformi og hins vegar í breytingu á hreyfingu. Þegar persónufornafn er sett í fleirtölu er hreyfingu bætt við eintölu formið en handformið helst það sama (sjá Elísa Guðrún Brynjólfsdóttir o.fl. 2012 um fleirtölu í ÍTM). Eins og í erlendum táknmálum er fleirtalan tvenns konar og greinir hreyfingin þar að, þegar vísað er til heildarinnar (e. collective) er hreyfingin í tákninu bogadregin en þegar vísað er til hvers og eins (e. distributive) er hreyfing endurtekin í boga.

Í tvítölu er hægt að nota handformin 2, K eða V. Hér getur í einhverjum tilvikum verið um mun á milli málhafa að ræða en algengt er þó að tvítalan sé ólík eftir því hvort um fyrstu persónu eða ekki-fyrstu persónu fornafn er að ræða. Í dæmum um ekki-fyrstu persónu, ÞIÐ-TVÖ, er handformið oftast K-handform eða V-handform eins og tilgreint er um fyrir ASL. Í fyrstu persónu fornafninu, VIÐ-TVÖ, er handformið hins vegar oftast 2-handform eins og í töluorðinu. Samkvæmt McBurney (2002:336) er handformið í tvítölunni ólíkt handforminu fyrir töluorðið tveir í ASL. Hreyfingin í þessum persónufornöfnum er hins vegar eins, í báðum tilvikum fram og til baka en samkvæmt Steinbach (2012) ætti hreyfingin að vera hringlaga þegar um töluinnlimun er að ræða. Hér er því ljóst að ÍTM er ólíkt öðrum rannsökuðum táknmálum en úr því verður ekki skorið hér hvort táknið VIÐ-TVÖ er tvítölumynd eða töluinnlimun.

Með- eða frátalinn

Í ÍTM geta persónufornöfn í fyrstu persónu eintölu og fleirtölu ýmist talið viðmælanda með eða ekki. Í VIÐ-ÖLLINCL er viðmælandi hluti af „við“ en í VIÐ-ÖLLEXCL er viðmælandi ekki hluti af „við“. Munurinn á myndun táknanna liggur í staðsetningu þeirra í rýminu eins og sjá má af dæmunum. Íslenska gerir ekki greinarmun á þessu og því sést það ekki á þýðingu persónufornafnsins að hér sé munur. Í tvítölu er munurinn á sama hátt í staðsetningu í rými, sjá dæmin VIÐ-TVÖINCL og VIÐ-TVÖEXCL.

Virðing og hlutverkaskipti

Persónufornöfn í ÍTM er hægt að staðsetja ofar í rýminu til að gefa til kynna ákveðna virðingu eða þérun eins og rætt er í kafla um virðingu og þérun í táknmálum almennt hér að ofan. Hlutverkaskipti í ÍTM samræmast líka því sem gerist í erlendum táknmálum og getur táknari notað fornafn fyrstu persónu um annan en sjálfan sig (e. logophoric pronouns). Þetta verður best útskýrt nánar með dæmum. Þegar táknari notar fyrstu persónu fornafn og bendir á sjálfan sig er merkingin ,ég‘ og á þá oftast við táknarann sjálfann. En þegar táknari notar hlutverkaskipti og er að endurtaka það sem einhver annar sagði eða jafnvel hugsaði, á ‚ég‘ við annan en táknarann sjálfan. Dæmi um þetta væri setning eins og: Jón sagði: „Ég fer í sund á eftir“ þar sem bending á líkama táknara vísar til Jóns en ekki táknarans sjálfs og má greina það af hlutverkskiptum táknara. ‚Ég‘ á því ekki alltaf við táknarann sjálfan.


Niðurlag/lokaorð

Hér hefur verið fjallað um persónufornöfn í táknmálum og sérstaklega í ÍTM. Í ÍTM hafa persónufornöfn myndir fyrir tvær persónur, fyrstu persónu og ekki-fyrstu persónu, þrjár tölur, eintölu, tvítölu og fleirtölu en beygjast ekki í kyni og föllum. Í persónufornöfnum í ÍTM er hægt að sýna ákveðna virðingu eða þérun og persónufornöfn í fyrstu persónu fleirtölu og tvítölu sýna hvort viðmælandi er meðtalinn eða ekki. Að auki er hægt að nota fyrstu persónufornafn um annan en táknara sjálfan í endurtekinni ræðu. Persónufornöfn í ÍTM eru mjög lík persónufornöfnum í öðrum rannsökuðum táknmálum, þó er hugsanlegt að tvítala hegði sér á annan hátt en þekkist. Persónufornöfn í ÍTM eru hins vegar töluvert ólík og í íslensku raddmáli.

Guðný Björk Þorvaldsdóttir og Kristín Lena Þorvaldsdóttir táknmálsfræðingar fá kærar þakkir fyrir yfirlestur og gagnlegar ábendingar.


Heimildaskrá

Bhat, D.N.S. 2004. Pronouns. Oxford University Press, Oxford.

Cormier, Kearsy. 2007. Do all pronouns point? Indexicality of first person plural pronouns in BSL and ASL. P. Perniss, R. Pfau og M. Steinbach (ritstj.): Visible Variation. Comparative Studies on Sign Language Structure, bls. 63-101. Mouton de Gruyter, Berlín.

Cormier, Kearsy. 2012. Pronouns. Roland Pfau, Markus Steinbach og Bencie Woll (ritstj.): Sign language – An international handbook, bls. 227-244. Mouton de Gruyter, Berlín.

Elísa G. Brynjólfsdóttir, Jóhannes Gísli Jónsson, Kristín Lena Þorvaldsdóttir og Rannveig Sverrisdóttir. 2012. Málfræði íslenska táknmálsins. Íslenskt mál og almenn málfræði 34, 9-52.

Engberg-Pedersen, Elisabeth. 1995. Point of View Expressed Through Shifters. Karen Emmorey og Judy S. Reilly (ritstj.): Language, Gesture and Space, bls. 133-154. Lawrence Erlbaum Associates, Hillsdale, N.J.

Friedman, Lynn. 1975. Space and Time Reference in American Sign Language. Language 51(4), 940-961.

Haspelmath, Martin. 2001. Word Classes and Parts of Speech. Paul B. Baltes og Neil J. Smelser (ritstj.): International Encyclopedia of the Social and Behavioral Sciences, bls.16538-16545. Pergamon, Amsterdam.

Höskuldur Þráinsson.1995. Handbók um málfræði. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Höskuldur Þráinsson. 2005. Setningar. Handbók um setningafræði. Íslensk tunga III. Almenna bókafélagið, Reykjavík.

Kristín Lena Þorvaldsdóttir. 2007. Augun mín og augun þín: Augnatillit með fornafnatilvísunum og í hlutverkaskiptum í íslenska táknmálinu. BA-ritgerð í táknmálsfræði. Háskóli Íslands, Reykjavík.

Liddell, Scott K. 2003. Grammar, Gesture and Meaning in American Sign Language. Cambridge University Press, Cambridge.

Lillo-Martin, Diane og Edward Klima. 1990. Pointing out Differences: ASL Pronouns in Syntactic Theory. S. Fischer og P. Siple (ritstj.): Theoretical Issues in Sign Language Research, bls. 191–210. University of Chicago Press, Chicago.

McBurney, Susan Lloyd. 2002. Pronominal Reference in Signed and Spoken Language: Are Grammatical Categories Modality-dependent? R. Meier, K. Cormier og D. Quinto-Pozos (ritstj.): Modality and Structure in Signed and Spoken Languages, bls. 329-369. Cambridge University Press, Cambridge.

Meier, Richard P. 1990. Person Deixis in American Sign Language. S. Fischer og P. Siple (ritstj.): Theoretical Issues in Sign Language Research, bls. 175–190. University of Chicago Press, Chicago.

O‘Grady, William, Michael Dobrovolsky og Francis Katamba. 1997. Contemporary Linguistics. An Introduction. Longman, London og New York.

Pfau, Roland og Josep Quer. 2010. Nonmanuals: Their Grammatical and Prosodic Roles. Diane Brentari (ritstj.): Sign languages, bls. 381–402. Cambridge University Press, Cambridge.

Pfau, Roland, Markus Steinbach og Bencie Woll (ritstj.): Sign language – An international handbook. Mouton de Gruyter, Berlín.

Steinbach, Markus. 2012. Plurality. Roland Pfau, Markus Steinbach og Bencie Woll (ritstj.): Sign language – An international handbook, bls. 112-136. Mouton de Gruyter, Berlín.

Sutton-Spence, Rachel og Bencie Woll. 1999. The Linguistics of British Sign Language: An Introduction. Cambridge University Press, Cambridge.