02. Eru jólin geimvera?

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

2. Eru jólin geimvera?

Eftir sönginn las konan sögu fyrir krakkana sem fjallaði um jólasveina sem búa í fjöllunum og fara með pakka til krakka. Zeta skemmti sér svo vel og hló og rúllaði sér um af kæti. Loks stóð kennarinn upp og sagði krökkunum að klæða sig í útifötin því nú þyrftu þau að fara. Það tók smá stund að safna hópnum saman en stuttu seinna var allt orðið hljótt aftur á safninu.

Ég verð að lesa meira um þessi jól, hugsaði Zeta forvitin. Hvernig eru þessi blessuðu jól eiginlega? Eru þau kannski glitrandi og glansandi? Ef blessuð jólin koma bráðum, eins segir í laginu, eru þau kannski einhver mannvera eða jafnvel geimvera? Eða eru jólin bara gjöf í pakka?

Zeta stökk niður á gólf og gekk rakleitt í áttina að bókahillunni þar sem konan hafði lagt bókina frá sér. Hún stökk upp á bókahilluna og fikraði sig meðfram bókunum. Hún las á bókakilina. Jólasveinarnir í fjöllunum. Jólavísur og kvæði. Skreytum jólatré... Loksins fann hún bók sem á stóð: Stóra jólabókin. Allt sem þú vilt vita um jólin.


„Aha! Þetta er bókin sem ég er að leita að!“ sagði Zeta og dró bókina út úr hillunni. Bókin var stór og dálítið þung og það tók hana smá tíma að ná henni út úr bókahillunni. Það heyrðist hávær skellur þegar bókin skall í gólfið.

Zeta hallaði sér fram af brún bókahillunnar og kíkti niður. Framan á bókinni var mynd af brosandi snjókarli og fagurlega skreyttu grenitré.

En falleg mynd, hugsaði Zeta og stökk niður á gólf. Hún opnaði bókina og fletti síðunum en inni í bókinni voru engar myndir. Þar voru bara hvítar síður. Zeta varð undrandi yfir þessari sýn. Hún fletti nokkrum blaðsíðum og hvergi var mynd að finna. Og það sem meira var: Allir bókstafirnir höfðu ruglast! Zeta klóraði sér í hausnum. Hverskonar bók var þetta eiginlega? Þetta hafði Zeta aldrei séð áður. Hafði eitthvað undarlegt komið fyrir bókina?