07. Ullarsokkur í snjónum

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

7. Ullarsokkur í snjónum

Zeta rann stjórnlaust á maganum niður stóra brekku. Henni brá svo mikið við fallið að hún gólaði alla leiðina niður. Fjörutíu fiðrildi flögruðu um inni í maganum hennar, eða þannig leið henni allavega, fiðringurinn var svo mikill. Snjórinn frussaðist framan í hana.

Loks nam hún staðar og lenti á einhverju mjúku - sem var ekki snjór. Hún stóð á fætur, dálítið vönkuð eftir salibununa, og þá sá hún að hún hafði lent ofan á stórum, gráum ullarsokki sem lá hálfgrafinn ofan í snjónum. Þetta er skrýtið, hugsaði hún og leit síðan upp fyrir sig. Á brúninni fyrir ofan sá hún glitta í hausinn á Klaka sem hrópaði: „Er allt í lagi með þig?“ Zeta veifaði til merkis um að allt væri í lagi.

„Ég kem niður,“ hrópaði Klaki hátt og renndi sér listilega á bakinu niður brekkuna og lenti við hlið Zetu. Hann stóð á fætur. „Er þetta ullarsokkur?“ spurði Klaki hissa þegar hann sá hvað lá á jörðinni.

„Já, mér sýnist það. Kannski er ÞETTA fyrsta vísbendingin okkar,“ svaraði Zeta og lyfti upp sokknum sem var næstum jafn stór og hún sjálf. Þau skimuðu bæði í kringum sig eftir mögulegum eiganda sokksins en enginn var sjáanlegur. „Þetta er MJÖG stór sokkur, þannig að það er líklegt að eigandinn sé MJÖG stór. Þekkir þú einhvern hér í Jólalandi sem gæti passað í hann?“ spurði Zeta.

„Mér dettur enginn í hug,“ sagði Klaki eftir smá umhugsun. Hann skoðaði sokkinn betur. „Hann gæti verið af einhverju skrímsli,“ sagði hann síðan og horfði alvarlegum augum á Zetu.

„Það eru örugglega ekki til skrímsli í Jólalandi. Skrímsli búa oftast á skrímslalegri stöðum. Kannski er það bara stór og vinaleg kýr sem á þennan sokk,“ sagði Zeta hughreystandi. „Það held ég ekki. Ég er handviss um að þetta sé sokkur af skrímsli,“ sagði Klaki alvarlegur í bragði.

Zeta og Klaki hrukku bæði í kút þegar þau heyrðu einhvern mása og blása fyrir aftan þau.