22. Refur á ferð og flugi

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

22. Refur á ferð og flugi

Nú heyrðist hávær fuglasöngur fyrir utan hellinn og þegar Zeta hljóp að hellismunnanum sá hún að Bíbí og allir glókollarnir komu fljúgandi að fjallinu. Hópur fugla hélt um gamla refinn og hjálpaði honum að klöngrast upp fjallið. Gamli refurinn gekk við staf.

„Ég er orðinn allt of gamall fyrir svona langferðalög,“ sagði gamli refurinn um leið og hann staulaðist inn um hellisopið með hjálp glókollanna. Hann var með gleraugun sín á sér og bar stóra tösku með sér. Hann reyndi að rétta vel úr sér og horfði upp eftir löngum líkama snjótröllsins.

„Jæja, svo þetta er snjótröllið í Mikilfenglega fjalli. Loksins fæ ég að hitta þig eftir að hafa hlustað á sögur af þér síðan ég var lítill yrðlingur,“ sagði gamli refurinn og var djúpt hugsi.

„Ég vissi ekki að ég væri svona frægur,“ sagði Tumi snjótröll og roðnaði pínulítið við alla þessa athygli sem hann hafði fengið frá íbúum Jólalands.

„Ef þú bara vissir hvað sögurnar sem sagðar hafa verið af þér eru ógnvekjandi... Þær fá alla litla yrðlinga til að skjálfa á beinunum, þar á meðal sjálfan mig þegar ég var lítill,“ bætti gamli refurinn við og hristi hausinn. Síðan hló hann dálítið.

„Ég er alls ekkert vondur. Þetta er allt bara mikill misskilningur,“ sagði snjótröllið síðan og bauð gamla refnum mandarínu.

Gamli refurinn opnaði töskuna sína. Klaki kíkti ofan í töskuna. „Hvað ertu með?“ spurði hann forvitinn.

„Nú, það má segja að ég hafi komið með jólin með mér,“ sagði gamli refurinn leyndardómsfullur.


Nú varð Klaki spenntur. „Komstu með stórar gjafir, jólatré og piparkökur?“ Hann hoppaði um á gólfinu fyrir framan hann.

„Ekki alveg,“ sagði gamli refurinn og gægðist ofan í töskuna sína.

„Þetta verður SVO gaman,“ sagði Klaki og klappaði saman höndunum.

En gamli refurinn dró ekki gjafir og jólaskraut upp úr töskunni. Upp úr töskunni kom eitt kerti í litlum kertastjaka, eldspýtur og spilastokkur.

Klaki horfði spurnaraugum á það sem fyrir augu bar. Hvernig gátu bara eitt lítið kerti og spilastokkur verið sjálf jólin?