Neitun í ÍTM: Yfirlit yfir myndun neitunar í íslensku táknmáli

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Birtu Bjargar Heiðarsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2023

Ritgerðin Neitun í ÍTM: yfirlit yfir myndun neitunar í íslensku táknmáli er unnin til BA prófs í táknmálsfræði og táknmálstúlkun við Háskóla Íslands og fjallar um neitun í íslensku táknmáli. Neitun hefur lítið verið rannsökuð í íslensku táknmáli og því voru erlendar rannsóknir hafðar til hliðsjónar við gerð þessarar ritgerðar sem og þær rannsóknir sem liggja fyrir um neitun í ÍTM.

Rannsóknarspurning ritgerðarinnar er: Hvernig er neitun mynduð í máli átta ÍTM málhafa og er það í samræmi við myndun neitunar í erlendum táknmálum? Markmið rannsóknarinnar var að búa til yfirlitsmynd af neitun í ÍTM og er því hvert málfræði atriði fyrir sig ekki greint ítarlega, heldur myndaður grunnur sem hægt er að byggja á.

Til að leita svara við rannsóknarspurningunni var rýnt í þrjú náttúruleg samtöl milli átta mismunandi döff einstaklinga sem öll hafa íslenskt táknmál að móðurmáli. Allar neitunarsetningar sem fundust í gögnunum voru skráðar og svo umritaðar í forritinu ELAN og bornar saman við niðurstöður fyrrum rannsókna.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að margt er sameiginlegt við myndun neitunar í ÍTM og erlendum táknmálum en þó eru nokkur mikilvæg atriði ólík því sem áður hefur verið talið fyrir ÍTM. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar er algengasta neitunartáknið í ÍTM táknið EKKERT og því næst táknið NL (höndum er veifað fyrir framan táknara þar sem lófi snýr fram) og má finna sambærileg tákn í mörgum öðrum táknmálum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að ef neitunartákn er í setningu standi það beint á eftir sagnlið en ekki á undan honum eins og áður var talið fyrir ÍTM. Erlendar rannsóknir benda þó til þess að bæði tilvikin séu algeng. Niðurstöðurnar benda til þess að neitunarlátbrigði séu mikilvæg í ÍTM en í öllum dæmunum var að finna neitunarlátbrigði af einhverju tagi og voru látbrigðin að hrista höfuð langalgengust en þau er að finna í öllum rannsökuðum táknmálum. Dreifing neitunarlátbrigða Í ÍTM ef ekkert neitunartákn er í setningu er yfirleitt yfir á sögn en einnig er leyfilegt að dreifa yfir á andlag eða frumlag ef það stendur sem fornafnsbending sem er í samræmi við eldri rannsóknir á ÍTM.

Augljóst er að þörf er á umfangsmeiri rannsóknum á neitun í ÍTM og geta niðurstöður þessarar rannsóknar sem og þau dæmi sem fundust virkað sem góður grunnur fyrir fleiri rannsóknir.

Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, Neitun í ÍTM: Yfirlit yfir myndun neitunar í íslensku táknmáli