ELDGOS í íslenska táknmálinu. Munnhreyfingar með tákninu ELDGOS hjá tveimur táknurum

Úr SignWiki
Jump to navigation Jump to search

B.A. verkefni Silju Hlínar Guðbjörnsdóttur sem útskrifaðist frá HÍ árið 2014

Í þessari ritgerð er fjallað um táknin ELDGOS og GJÓSA í íslenska táknmálinu. Einblínt er á munnhreyfingarnar sem fylgt geta með þessum táknum en einnig er fjallað um tengsl munnhreyfingarinnar við aðra þætti í myndun táknsins og hegðun þess almennt. Þessi tákn eru eins nema mögulega hvað munnhreyfinguna varðar og eru þau því lágmarkspar. Því hefur oft verið haldið fram að nafnorðum fylgi raddmálsmunnhreyfingar en að sagnorðum fylgi táknmálsmunnhreyfingar. Þessi „regla“ er sérstaklega höfð til hliðsjónar í rannsókninni. Einnig eru niðurstöðurnar settar í samhengi við skrif fræðimanna um munnhreyfingar.

Skoðaðar eru upptökur tveggja táknara á sömu sögunni; Eldgos eftir Tryggva Jakobsson og þær bornar saman. Helstu niðurstöðurnar eru þær að: • „Reglunni“: nafnorð+raddmálsmunhreyfingar og sagnorð+táknmálsmunnhreyfingar er fylgt að mestu leyti. Undantekningarnar eru nógu fáar til þess að reglan geri mögulega eitthvert gagn sem viðmiðunarregla en undantekningarnar eru of margar til þess að henni sé tekið of hátíðlega og fylgt í hvívetna.

• Margt sem tengist myndun táknsins hefur áhrif á munnhreyfingar. T.d. hvort táknið sé í eintölu eða fleirtölu, hvort það sé samsett eða ekki og fjöldi hreyfinga í myndun þess.

• Félagslegar breytur og aðrir utanaðkomandi þættir (t.d. aðferð við þýðingar) hafa talsverð áhrif en þó má reikna með að einstaklingsmunur sé það sem skipti mestu máli.

• Niðurstöðurnar ríma við niðurstöður erlendra fræðimanna og niðurstöður smærri íslenskra rannsókna hvað munnhreyfingar varða.

Ritgerðina í heild sinni má nálgast í gegnum Skemmuna, ELDGOS í íslenska táknmálinu. Munnhreyfingar með tákninu ELDGOS hjá tveimur táknurum